17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

14. mál, stimpilgjald

Pjetur Jónsson:

Jeg verð að lýsa ánægju minni yfir því, hve hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hefir gefið glögga og greinilega skýrslu um fjárhag landsins. Það er heppileg venja, sem hann hefir tekið upp, að láta þm. í tje á hverju þingi yfirlit yfir tekjur og gjöld síðustu ára, og er síst vanþörf á að geta áttað sig á ástandinu í hvert skifti. Þá er ekki síður ástæða til að gleðjast yfir því, hve skaðlítið við höfum sloppið yfir það vandræðatímabil, sem að baki er lagt, og má það sumpart þakka áhuga hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) á því að afla landssjóði tekna. En þó jeg meti mikils þennan áhuga og geti varla áfelst hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) fyrir að bera fram þetta frv., þá er mjer næst að halda, að áhuginn fari að verða um of, eða hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hætti við um of að líta á það eitt, að afla tekna: minna á það, með hvaða móti það er gert. Þó útlit sje fyrir einhvern halla á þessu ári, þá held jeg, að ekki sje of djarft teflt, þó hann sje látinn eiga sig til næsta þings. Margt getur raskast í þeirri áætlun, sem gerð hefir verið, og auðvitað sumt til baga, en tekjurnar geta líka orðið drýgri en áætlað er, eða svo hefir það reynst oftast nær.

Þó menn vildu nú á þessu þingi reyna að auka tekjur landssjóðs eitthvað, þá get jeg ekki felt mig við þá leið, sem þetta frv. fer. Jeg get því viðvíkjandi fallist á röksemdir hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) og hv. þm. Stranda. (M. P.). Hjer er farið fram á aðflutningsgjald og það kallað stimpilgjald. Vitanlega væri viðkunnanlegra að kalla það sínu rjetta nafni og hafa það reglulegt aðflutningsgjald. Held jeg, að stimpilgjaldsformið sje óheppilegra, og byggi jeg það á reynslu minni. Gjald þetta á að vera að eins til bráðabirgða, um stuttan, takmarkaðan tíma, og sýnist mjer sú fyrirhöfn, í stimpilmerkjum o. fl., sem það leiðir af sjer, vera of mikil og unnin mjög fyrir gíg. Þessar og aðrar aðfinslur má tilfæra um frv. þetta, en það hafa aðrir gert og því óþarfi að fara langt út í það.

Því verður ekki neitað, að skattaálögurnar eru orðnar þungar. Það má segja, að á nálega hverja vöru sjeu komnar drápsklyfjar, og er þá óskemtilegt að hafa marga bögla ofan í milli. Jeg held, að fara verði varlega í það að bæta tolli á toll ofan, og það á sömu vöruna. Það spillir heldur en bætir, að þessir tollar eru kallaðir ýmsum nöfnum og innheimtir með ýmislegu móti. Það er ekki samræmi í því. Samkvæmt áskorun síðasta þings hefir stjórnin skipað nefnd sjer til aðstoðar við skattamálin, og mun þá fyrst og fremst reynt að koma lagi á þann rugling, sem nú er. Það hefir verið borið fram, að þetta frv. gæti orðið til að greiða starf nefndarinnar, til að sýna henni, hvernig verðtollur reynist, en jeg held, að það verði að eins til að trufla hana, og því minni ástæða er til að samþ. þetta frv. nú, þegar von er á bættri skattalöggjöf, og vonandi nýju skattakerfi. Gömlu skattarnir (tollarnir) geta orðið þrándur í götu og örðugleikar á að afnema þá, og þess vegna nauðsyn að fjölga þeim ekki úr þessu.

Þessi orð mín ber ekki að skilja svo, að jeg sje því með öllu fráhverfur, að hafa stimpilgjald á einhverjum óþarfa varningi, sem auðvelt er að stimpla. En jeg er alveg á móti því að setja stimpilgjald á nauðsynjavöru.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) má ekki taka þessa ræðu mína svo, sem jeg væri að andmæla þeirri fjármálastarfsemi hans og viðleitni til að afla landssjóði tekna, svo að hrökkvi fyrir útgjöldum. Jeg met hana mikils, og jeg er honum sammála um það, að aðalreglan eigi að vera sú, að hvert ár beri sig. En hitt tel jeg vafaatriði, hvort samþ. eigi athugaverða tolla, til þess að fylgja reglunni út í ystu æsar.