17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

14. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Að eins örfáar athugasemdir. Jeg ætla ekki að fara langt út í ræðu hv. þm. S. Þ. (P. J.). Jeg vildi að eins geta þess um þau ummæli hans, að stimpilgjaldið yrði til þess að trufla skattanefndina, að nefndin sjálf hefir talið heppilegt að gera þessa tilraun, eða að minsta kosti fjelst meiri hluti nefndarinnar á frv. er jeg bar það undir hana. Um væntanleg ónýt stimpilmerki skal jeg benda á það, að auðvelt er að fara nærri um, hve mikið þarf að nota, og ákveða fjöldann eftir því. Annars ætla jeg ekki að fara nánar út í þær umræður, sem orðið hafa. Jeg sje ekki ástæðu til að margendurtaka það, sem jeg hefi sagt, og vona, að hv. deild sje það ljóst, hvers vegna þetta frv. er fram komið, eða að frv. er lagt fram í því skyni, að búskapur yfirstandandi árs beri sig. Þeirri reglu hefi jeg viljað fylgja, og mjer þótti vænt um, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) fjelst á hana.