17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

14. mál, stimpilgjald

Gísli Sveinsson:

Jeg ætla ekki að halda hjer neina líkræðu yfir málum nje mönnum, heldur fara nokkrum orðum um frv. sjálft. eins og það liggur fyrir. Jeg er ekki á sama máli og þeir hv. þm., sem talað hafa á móti frv. Jeg get sætt mig við það, að fram er komið frv. um tekjuauka. Jeg get líka sætt mig við það, að sú leið verði farin, sem frv. bendir til. Sumir hv. þm. hafa ekki talið þörf á tekjuauka, og þó að hún væri ekki sjáanleg nú, þá er hyggilegra að gera ráð fyrir, að hún geti orðið, og haga sjer samkvæmt því. Og aðferðina til að ná tekjuaukanum tel jeg alls ekki fráfælandi, sem bráðabirgðaráðstöfun. Þetta gjald er í engu ranglátara eða kemur ver niður en margt annað af sköttum eða tollum vorum, og ættu menn því eins að geta aðhylst það sem hitt. Og frv. tekur sjálft fram, að það sje til bráðabirgða, svo að ekki er það til fyrirstöðu. Sannleikurinn er sá, að skattalöggjöf vor frá síðustu árum er öll vandræðabráðabirgðaráðstöfun, en við það verður að una, þangað til úr verður bætt. Nú er skattanefnd, er heita má, sest á rökstóla og vill hún fá einhverja, þótt ekki sje nema litla, reynslu um það, hvernig verðtollur gefst. Þetta frv. fer fram á slíkan toll og getur því ef til vill gefið nokkrar upplýsingar, ef það kæmist til framkvæmda. Í sjálfu sjer er verðtollur sanngjarnari en vörutollur eða þungatollur, og þá sjerstaklega þegar miðað er við innkaupsverð. Ef það sýnir sig, að slíkur tollur er framkvæmanlegur, þá getur það orðið til þess, að heldur verði á honum bygt en þungatollinum. Ef tollurinn reynist illa, þá er þess að gæta, að um stuttan tíma er að ræða og í því skattamoldviðri, sem við höfum nú, gætir þessa ekki mikið.

Það hefir verið um það talað, að þessi tollur bæri annarlegt nafn. Mjer finst satt að segja, að nafnið komi þessu máli minst við. Frv. fer ekkert leynt með það, hverskonar gjald það fer fram á, og villir því ekki á sjer heimildir að því leyti. Jeg skil því ekki þá mótbáru og sje ekkert á móti því, að tollurinn sje hafður í stimpilgjaldsformi, ef framkvæmdarvaldinu þykir það þægilegra til innheimtu.

Það má altaf deila um það, hvort rjett sje að bæta tolli á toll ofan, hvort sumar vörutegundir þoli meira en þær bera nú, eða hvort nokkur tollur skuli vera á þeim. En eins og nú horfir við, þá hafa slíkar mótbárur naumast áhrif. Við lifum á óeðlilegum tímum og þurfum að afla tekna með fleira móti en því, er gott þykir. Enginn getur um það sagt, hvað koma kann, og því sjálfsagt að vera við öllu búinn. Það er altaf að koma það fyrir, sem eyða þarf í fje, og ekki er hægt að spyrja, hvað það kosti; það verður að gerast. Jeg get að eins nefnt atriði, sem mjög er nú á döfinni, sem sje sóttvarnir, sem eitt dæmi. Þar er ekki hægt að skera við neglur sjer; þær verða að gerast, án tillits til þeirra peninga, sem í þær fara. Fyrir mjer vakir þetta yfirleitt, að sjá um, að landið vanti ekki afl þeirra hluta, sem gera skal. Við verðum að reyna að búa sem best að okkar, því annars getur rekið að því, að fje vanti til nauðsynlegra framkvæmda og ráðstafana. — Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú tekið fram, verð jeg því hlyntur, að þetta frv. nái fram að ganga.

Um leið og jeg lýsi yfir þessari „loyal“ afstöðu til stjórnarinnar, verð jeg að geta þess, að ummæli hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) um háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) snertu mig illa. Mjer fjell það illa, hve hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) varð æstur i þessu máli, sem á að ræðast með rósemd og íhugun. Hann kallaði hógværar og rökstuddar aðfinslur „kjósendaglamur“ og öðrum slíkum nöfnum, og er þetta eins óviðkunnanlegt, þótt hann sje mjer sammála um, að röksemdir hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) gera hvorki til nje frá í þessu máli, eins og nú standa sakir. Það var líka ofsagt hjá hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), að alt það, sem fundið hefir verið að fjármálastjórninni, hafi verið bygt á „glamri“. Þetta er sagt algerlega út í hött. Það vita allir, að margt hefir mátt að stjórninni finna, og er það ekki furða, þegar tekið er tillit til þeirra tíma, sem hún hefir verið við völd. En eins og margt hefir verið að henni fundið, eins hefir margt verið látið liggja í láginni, sem betur hefði mátt fara.

Jeg stóð aðallega upp til að mæla með frv., en jeg gat þó ekki stilt mig um að setja þessa „rúsínu“ í endann, og vona jeg, að stjórnin þiggi hana sem hitt. Hana má kalla „steinlausa“.