17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

14. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Hvað viðvíkur síldartollinum, þá var gert ráð fyrir því í stjórnarfrv. síðastliðið ár, að lögð yrði 1 króna á tunnuna á því ári, sem nú er að líða eða tollurinn væri hækkaður um 50 aura á tunnu. Það voru hv. þm., sem lögðu til, að tollurinn væri hækkaður á þessu ári, og það ýmsir, sem voru vinir síldarútvegsins.

Í raun og veru kemur stimpilgjaldið ekki hart niður á nauðsynjavöru. T. d. mun kolatonn í innkaupi nálægt 100 kr., en útsöluverð verður væntanlega bráðum 250 kr. Ef ein króna væri lögð á útsöluverð kolatonnsins þá yrði það 251 kr., og sjá allir, að það skiftir litlu máli.

Þá er sykurinn. Pundið mun kosta í innkaupi (veit það annars ekki fyrir víst) um 1 kr. Tollurinn af því mundi verða 1 eyrir á pund. Sannleikurinn er sá, að viðbót þessi er svo lítil, að hennar gætir naumast hjá almenningi, en safnast þegar saman kemur og verður mikilsverð fyrir landssjóð.

Þegar menn athuga, að þetta eru viðkvæmustu vörurnar, þá ættu allir að sjá, að þetta er langt frá því að vera óttalegt. Yfirleitt er þetta gjald mjög eðlilegt, þar sem gildi peninga hefir breyst svo mjög, en tollur af t. d. sykri ekki hækkað, eins og hann hefði átt að gera til þess að verða í samræmi við verðgildi peninganna.

Sumir hafa hneykslast á því, er jeg sagði, að þeir, sem hæst ljetu á móti skattafrv. stjórnarinnar, hefðu vanalega aldrei getað bent á neina nýja leið. En þetta er sannleikurinn. Og þeir, sem eru að berja barlómsbumbuna fyrir almenninginn, vita vel, að hvert einasta skattafrv. kemur altaf hart niður á almenningi á erfiðum tímum. Þeir, sem lifa í þeim fagra draumi, að þetta breytist við endurskoðunina á skattalöggjöfinni, eiga eftir að hrökkva upp af draumnum. Engri stjórn dytti í hug að bera fram skattafrv. ef nauðsyn kallaði ekki að, en hjer er það nauðsynin bláber sem kallar.