24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

14. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það varð að samkomulagi við 2. umr. að ræða frv. þetta ekki fyr en við þessa umr. Jeg ætla að geta þess, að nefndarmenn hafa ekki allir skrifað undir nál. Háttv. þm. Barð. (H. K.) var veikur þegar nefndarfundur var og hefir því óbundið atkv. En allir aðrir nefndarmenn hafa fallist á frv. með breytingum, sem ekki eru stórvægilegar. 1. brtt. er við 1. gr. og um, að í stað 10% komi 15%. 2. brtt er um það, að verði ágreiningur um, hvað eigi að telja óþarfa vöru, þá á stjórnarráðið að skera úr. Það þótti óhentugt að láta dómstólana gera það, haganlegra að stjórnarráðið gerði það. Enn er þess að geta, að inn í 7. gr. frv. hafði slæðst villa, sem nefndin vill leiðrjetta, og lýtur að þessu 3. brtt. hennar, sem er alveg sjálfsögð.

Þá kem jeg að brtt. frá öðrum en nefndinni, og skal þess fyrst getið um brtt. á þgskj. 82, að með því að henni hefir ekki verið útbýtt fyr en á þessum fundi, hefir nefndin ekki átt kost á að bera sig saman um hana, svo að nefndarmenn hafa óbundið atkv. En jeg vil fyrir eigin reikning taka það fram, að ef á að fara að undanskilja í þessu gjaldi salt, kol, olíu, sykur og byggingarefni o. fl., þá er lítið eftir, sem aflað getur ríkissjóði tekna, ef notuð er heimildin til að takmarka innflutning á óþarfa varningi. Það var greinilega sýnt fram á það við 1. umr., að þörf væri á því að auka tekjurnar, en jeg vil bæta því við þær ástæður, sem þá voru tilfærðar, að ekkert er áætlað fyrir tvennum fjáraukalögum, sem vitanlega koma á þetta fjárhagstímabil, og þau hafa að minsta kosti 1 miljón kr. útgjöld í för með sjer.

Þá er brtt. háttv. þm. Borgf. (P. O.), á þgskj. 67. Um fyrri hluta brtt. eru nefndarmenn frjálsir með atkv. sín, því þeir eru ekki á eitt sáttir, en það leiðir af því, sem jeg hefi áður sagt, að jeg er henni mótfallinn.

Um síðari hluta brtt. er það að segja, að hann fer að sumu leyti lengra en frv. stjórnarinnar, að sumu leyti skemra, og að sumu leyti jafnlangt. Um leikföngin ber ekki annað á milli en að háttv. þm. Borgf. (P. O.) vill skatta þau með 20%, nefndin með 15% og stjórnin með 10%, en um þetta býst jeg við, að háttv. þm. (P. O.) geti fylgt nefndinni að máli.

Háttv. þm. (P. O.) fer lengra en nefndin og stjórnin í því, að hann vill láta falla undir skattinn ýmsar vjelar, t. d. vasaúr, sem hann telur ónauðsynlegar. Á þetta getur nefndin alls eigi fallist, bæði af því, að hún telur ekki úr að öllu eða fyrir alla ónauðsynlega vjel, og af því, að einmitt með því að nefna úr sem óþarfa vjel er þetta hugtak gert svo óákveðið, að ógerlegt virðist að framkvæma ákvæðið, ef það verður orðað eins og háttv. þm. (P. O.) vill.

Háttv. þm. (P. O.) fer skemra eu nefndin að því leyti, að hann vill að eins taka undir hærra gjaldið ónauðsynlega hluti úr málmi eða málmblendingi, en hví á ekki að taka slíka hluti, þótt þeir sjeu úr t. d. trje, gleri, postulíni, marmana, asbest, gúmmí eða öðru? Þetta er stór ókostur við brtt. háttv. þm. (P. O.) og eitt nóg til þess, að nefndin verður mjög ákveðið að leggja á móti þessum hluta till.

Jeg ætla að lokum að víkja að brtt. á þgskj. 82. Það er ekki tilfinnanlegt, sem þarf að borga af nauðsynjavörum eftir frv. Af 1 smálest af salti yrði það ca. 30 aurar, og af 1 smálest af kolum ca. 1 kr., og þegar hún kostar 225–240 kr., þá munar ekki mikið um eina krónu í viðbót. Svipað er með korn og sykur. 1 eyrir af hverju sykurpundi. Þetta er ekkert tilfinnanlegt fyrir einstaklingana, en mikið fje í ríkissjóð, og það er fje, sem bein þörf er á.