24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

14. mál, stimpilgjald

Gunnar Sigurðsson:

Jeg er því mótfallinn að bæta einni bót enn þá á hina karbættu skattaflík vora. Það hafa fyrir löngu opnast augun á mönnum fyrir því, að skattalöggjöf vor, eins og hún er nú, sje með öllu úrelt og ómöguleg. Þar ægir öllum skattakerfum saman, hvert þing leggur sína skatta á af handahófi, til að afla sjer tekna, ýmist með því að tvöfalda þá skatta, sem fyrir eru, eða skatta að nýju einhvern atvinnurekstur, meira og minna óhugsað og út í bláinn. Skattafrv. þetta er ágætt dæmi þessa. Það er því merkilegra að hugsa til þess, að stjórnin skuli nú leggja þetta frv. fyrir þingið, eftir það að búið er að skipa nefnd til þess að endurskoða skattalöggjöf vora og gera tillögur um nýja skattalöggjöf, sem væntanlega kemst bráðlega í framkvæmd. Það er sennilegt, að minsta kosti vona jeg það, að framtíðarskattalöggjöf byggist aðallega á beina skattakerfinu, þótt jeg búist hins vegar ekki við því, að þeim verði komið á alt í einu, heldur að þar verði fyrst um sinn að fara einhvern meðalveg. Með beinu sköttunum fer löggjafinn þá sanngjörnu leið, að leggja skatt á gróða framleiðenda, í staðinn fyrir að hefta framleiðsluna með því að skattleggja þær vörur, sem eru undirstaða og skilyrði fyrir framleiðslunni, eins og t. d. kol og salt. Eins og skattalöggjöf vor er nú, er það altítt, að þeir greiða skatt af beinu tjóni. Hve hróplegt ranglæti slíkt er, sjá allir almennilegir, sanngjarnir menn. Það er líka ósanngjarnt og ranglátt að leggja skatt á brýnar lífsnauðsynjar, eins og þetta frv. gerir. Það kemur þyngst niður á fátækum ómagamönnum.

Jeg hafði upphaflega ætlað mjer að fylgja brtt. háttv. þm. Borgf. (P. O.), en fylgi brtt. hv. þm. Stranda. (M. P.) eftir að hún kom fram, með því að hún dregur fleira undan skatti af nauðsynjavörum. Aftur á móti er jeg þeirrar skoðunar, að í rauninni sje rjett að leggja háan skatt á óhófsvarning, en þar er hættan á að rekast á smyglunarskerið, og því álít jeg nú ekki heppilegt að hafa skattinn hærri en í mesta lagi 10%, því þá mundi þó síður vera hætta á því, að menn freistuðust til þess að smygla.

Í sambandi við smyglunarhættuna þarf ekki annað en að benda á áfengissmyglun síðari tíma og enda tóbaks. En þó er hátíð að eiga við eftirlit með innflutningi á slíkum vörum í sambandi við t. d. skrautgripi, því menn geta flutt þúsunda króna virði af slíkri vöru í vösunum.

Jeg hygg, að ekki myndi hægt að hafa örugt eftirlit með innflutningi á skrautgripum, enda þótt tollgæslan yrði bætt að mun.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) mintist á það, að skattarnir væru mjög ljettir hjer tiltölulega, miðað við önnur lönd. Það er nú ekki svo furðulegt, þótt við stöndum enn ekki jafnir að skattaálögum þeim þjóðum, sem mestu hafa eytt í herkostnað á undanförnum stríðsárum. Mjer fyrir mitt leyti er það stærra atriði, hve viturlega og sanngjarnlega skattarnir eru lagðir á, en hve háir þeir eru, að minsta kosti ef þeim er vel varið. Ef minst er þess lands, sem oss verður að teljast næst, Danmerkur, þá eru þar að vísu háir skattar, en þeir eru komnir í fast kerfi og að mestu bygðir á beinum sköttum. Það mun mega telja, að vart muni finnast vitlausari og grautarlegri skattalöggjöf á hnettinum en hjer á landi, og það er fjarri því, að jeg vilji auka við skattana á þeim grundvelli, heldur þvert á móti rífa þá löggjöf alla til grunna og reisa úr þeim rústum nýja, rjettlátari skattalöggjöf.