24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

14. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það er misskilningur hjá háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.), að það sje tekjuafgangur frá síðasta fjárhagstímabili. Það var hjer um bil 1 milj. kr. halli, en ekki afgangur. Og þegar nú háttv. þm. (Jak. M.) hefir fengið skýringu á þessu, býst jeg við, að hann snúi við blaðinu og greiði atkv. með frv.

Jeg hefi tekið það fram áður, að jeg vil forðast tekjuhalla, en láta landsbúið bera sig fyrir hvert ár.

Það er ekkert nýtt, að þetta frv. auki kostnað við innheimtuna; það er ekkert sjerstakt fyrir þennan skatt.

Að undanfarandi þing hafi í blindni og af handahófi hækkað álögurnar á stríðstímunum, finst mjer nokkuð harður dómur um undanfarandi þing, og óvíst, hvort þeir, sem setja slíkar ásakanir fram, hefðu fundið heppilegri leiðir.

Það er þörf fyrir þetta fje í ríkissjóðinn, og við þolum ekki biðina eftir endurskoðun skattalöggjafarinnar. Jeg skil því ekki, hvað kemur hv. þm. Stranda. (M. P.) til að halda því fram, að ekki sje þörf á þessum tekjum í ríkissjóð.

Eins og jeg tók fram við 1. umr. þessa máls, er fróðlegt að reyna. hvernig verðtollur gefst. Verðtollur er sanngjarnari en vörutollur, og því ekki áhorfsmál að halla sjer að honum, ef svo reynist, að nokkurn veginn auðvelt sje að innheimta hann, og úr því fæst skorið með þessu frv.

Jeg hygg, að orð háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) um, að enginn „almennilegur maður“ geti verið þessu frv. meðmæltur. heldur eigi að taka allar tekjur með bein um sköttum á gróða, sje sagt hugsunarlaust og út í bláinn. Háttv. þm. (Gunn. S.) talaði líka mikið um þessa bót á hið gamla fat (skattalögin), en það hygg jeg þó, að hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) mundi heldur kjósa að bæta gömul föt, ef hann gæti ekki fengið sjer ný, heldur en að ganga í gat slitnum görmunum. (Gunn. S.: Ekki ef gömlu fötin væru alveg ónýt). Mundi þá þm. (Gunn. S.) ganga ber heldur en bæta fötin? Hvað snertir það, að ekkert land á hnettinum hafi jafnvitlausa skattalöggjöf og Ísland, er það staðhæfing, sem jeg vil svara með annari staðhæfingu, sem jeg er viss um að er rjett, og hún er sú, að þm. (Gunn. S.) þekkir ekki skattalög allra landa hnattarins, og getur því ekkert um þetta sagt.