24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

14. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg þarf ekki að svara hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.), því hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) hefir sýnt fram á, að tekjuhallinn 1918 varð 2½ miljón, svo að afgangurinn 1919 vinnur það ekki upp, eða halli af báðum árunum verður um 1 miljón.

Þá sný jeg mjer að hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.). Við deildum um póstkröfuna, og verð jeg að halda fast við minn skilning. Ef búið er að borga af kröfunni áður, svo nafnverð hennar er lægra en sendingin, þá verður að taka það til greina. (Ó. P.: Það er ekki tekið fram í frv.) Það er ómögulegt að taka alt fram í lögum, en þetta er auðvitað skýringaratriði.

Jeg ætla að taka það fram, að jeg er á öfugri skoðun við hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) um tolleftirlitið. Hann áleit, að stimpilgjald hefði tvísýnan gróða í för með sjer, ef þess vegna þyrfti að auka eftirlitið. Jeg held, að reynslan sje búin að sýna það, að auknu eftirliti fylgja auknar tekjur í ríkissjóð. Það er því fjárhagslegur gróði að auka eftirlitið, og jeg býst heldur ekki við að hjá því verði komist að minsta kosti í aðalkaupstöðunum.

Þá talaði hv. þm. (Ó. P.) um það, að hann gæti ekki greitt því atkv., sem hann væri „principielt“ á móti. Þetta skil jeg vel, en stundum kemur það fyrir, að nauðsyn er svo sterk í fjármálum, að víkja verður frá „principunum“, ef fjeð ekki fæst á annan hátt.

Það gladdi mig að heyra álit hv. þm (Ó. P.) um tekjuskattinn, og vona jeg, að við verðum sammála um hann, þegar það mál kemur fyrir þingið eða þegar skattanefndin hefir lokið störfum sínum. Jeg hefi þá skoðun, að tekjuskatturinn sje rjettlátasta gjaldið, sem í ríkissjóð rennur. En í sambandi við hann vildi jeg benda á, að nauðsynlegt verður hjer eins og annarsstaðar að koma á sterku eftirliti með skattaálagningunni.

Hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) var hræddur um, að jeg kæmist í geðshræringu, og vildi reyna að afstýra því. Jeg þakka honum nærgætnina, en jeg veit ekki, hvort það er rjett af honum að óttast það, að jeg kæmist í geðshræringu. Jeg vildi óska, að margir hv. þm. kæmust oftar í geðshræringu en þeir gera. Það grúfir einhver molla hjer yfir deildinni, og mætti henni gjarnan ljetta af öðru hvoru. Það væri ákjósanlegt, að menn kæmu oftar út úr þokunni en þeir gera. Jeg veit t. d. ekki einu sinni um það, hvort hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) er með stjórninni nýju eða ekki. (Sv. B.: Jeg veit það heldur ekki um hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), svo það er kaups kaups).

Mjer þótti það undarlegt hjá hv. þm. (Sv. B.), að hann sagði alla á móti frv. Hv. þm. (Sv. B.) hefir eflaust ekki athugað það nógu rækilega, að heil nefnd mælir með því, og þykja þau mál ekki einmana og yfirgefin, sem studd eru af þeim mönnum, sem bestan tíma hafa haft til að athuga þau.

Þá spurði hv. þm. (Sv. B.), hvers vegna aðrar leiðir væru ekki farnar. Jeg endurtek spurninguna. Hvers vegna er ekki bent á aðrar leiðir? Því jeg tel vörutollshækkunina, sem minst hefir verið á, varla leið, því allir vita, að hún mundi nú hafa margstrandað í þinginu. Það má enginn ímynda sjer það, að hægt sje að finna leiðir, sem allir eru ánægðir með. Það er sama með hvaða frv. er komið í þessum efnum, sumir telja þau óhafandi, aðrir góð, enda er það ekki að furða, því harðasta stríðið stendur oftast um skattamálin. Það er satt, að skattarnir eru nú orðnir allmiklir, en ef litið er til annara landa, þá eru þeir miklu þyngri þar en hjer. Skattarnir verða að vera allmiklir hjer, ef vel á að vera, og hjá því verður ekki komist með endurskoðun á skattalöggjöfinni.

Jeg veit, að stjórninni mun ekki detta í hug, að slík leið verði fundin. Það hefir verið tekið fram, að hjer er um bráðabirgðaleið að ræða, og sá kostur fylgir, að þinginu gefst kostur á að reyna, hvernig verðtollurinn gefst. Að undanförnu hefir staðið deila um verðtoll og vörutoll. Jeg get ekki sjeð, að fram hafi komið nokkur rök, sem rjettlæti það, að brugðið sje fæti fyrir þetta frv., er gamla stjórnin álítur nauðsynlegt og nýja stjórnin mun styðja. Og jeg skal lýsa því yfir, að jeg mun ekki leggja móti því, þegar jeg er kominn á þingbekkina, að stjórnin fái þá tekjuauka, sem hún þarfnast. Fjárhagsörðugleikar eru nú hvarvetna í heiminum. Vjer megum því ekki treysta á aðra en sjálfa oss um fjármál. Þess vegna verðum vjer að útvega landinu þá tekjuauka, sem það þarf, til þess að þjóðarbúskapurinn geti borið sig.