24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

14. mál, stimpilgjald

Pjetur Ottesen:

Það eru nú orðnar allmiklar umræður um mál þetta, enda skal jeg ekki lengja þær. Jeg vildi að eins lýsa yfir því í sambandi við ræðu hv þm. V.-Ísf. (Ó. P.), að tilraun hefir áður verið gerð til að breyta vörutollinum í verðtoll. Og í samræmi við það flutti jeg á síðasta þingi frv. um verðtoll af glysvarningi. En frv. komst ekki fram, ef til vill fyrir þá skuld, að það kom nokkuð seint fram. Því verður ekki neitað, að verðtollur er í sjálfu sjer rjettlátari en vörutollur. Vörutollurinn, sem tekinn er eftir þunga vörunnar, kemur jafnt niður á grjót og gimsteina. Reyndar mætti ef til vill segja, að erfiðara væri að framfylgja verðtollinum. Þó hefir lögreglustjórinn hjer í Reykjavík látið í ljós, að hann áliti það ekki mjög erfitt.