24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

14. mál, stimpilgjald

Bjarni Jónsson:

Jeg er nú svo gamall, sem á grönum má sjá, og hefi jeg þó aldrei sjeð svo langan gaur í svo lítilli grýtu, alt þetta umræðuflóð út af jafnmeinlausum lögum. Fyrst eru menn nú að tala um, að óviðeigandi sje að nefna þennan skatt stimpilgjald, sem þó er kallaður inn með stimplun. Svo er verið að tala um, hvort þessi stefna sje nú rjett og hvort ekki hefði verið rjettara að hafa verðlagstoll í staðinn fyrir þennan toll, og hver afleiðingin af því hefði orðið. En jeg vil nú benda háttv. þm. á, að hún hefði orðið sú, að nú þyrfti ekki að hækka neinn toll og að það hefði orðið miklu betra og rjettlátara að því leyti, að þeir, sem dýrastar vörur hefðu keypt og selt, hefðu þá líka orðið að greiða mest í tollinn, en finna má einhvern svolítinn verðmun, ef jeg þekki rjett, á t. d. lýsissápu og gimsteinum. Og hvers vegna ýfast menn þá við, þó að þetta sje fyrsta tilraun, enda þótt það sje ófullkomin tilraun, til að koma á nýrri og rjettlátari stefnu? Það er eins og samviska þeirra beri drápsklyfjar, ef þetta kemur fram. (Sv. B.: Já, sumra). Já, en það hefir þá verið þyngra á þeim áður. Jeg sje því ekki annað en að rjett sje að mæla með frv.; aðferðin er handhæg og góð og stefnan er rjettlát. Það er helst útlit fyrir, að menn óttist það, að skattarnir verði of háir í framtíðinni. En jeg held nú, að ef menn líta á þetta með skynsemi og stillingu, þá muni þeir komast að öðru.

Mjer finst aðferð manna í þessu máli líkust því, að þeir sjeu allir að reyna að fara í gegnum sjálfa sig. Tökum annað dæmi. Hugsum okkur, að gjöld manna fyrir stríðið væru tekin og margfölduð með gildi peninga nú, og svo væru einnig tekin öll gjöld til landssjóð nú og margfölduð með sömu tölu. Þá myndi koma út hærri tala en þau gjöld, sem nú eru, svo að hver, sem tekur það með skynsemi, mun sjá og skilja, að tollarnir hafa ekki verið lægri fyrir stríðið, eða ef menn grípa til þess að margfalda með sömu vísitölu sem sum gjöld landssjóðs eru nú margfölduð með, þá mundu menn komast að hinu sama og tilsvarandi, og þá hygg jeg að þungt muni vera á þeim samviskum, sem ekki treystust til að bera þetta frv.

Áður en jeg sest niður vil jeg láta í ljós undrun mína yfir því, sem hjer hefir verið að gerast. Mjer kemur í hug sagan um Völsung. Móðir hans gekk með hann í 6 ár, og þegar hann fæddist, var hann svo stór og þroskaður, að hann hvarf til móður sinnar og myntist við hana áður en hún dó. En hjer hafa þau undur gerst, að ófætt barn hefir talað. Hvað segir hv. þm. S.-Þ. (P. J.) um það?

Menn hyggja, að ekki mætti gera neitt gagnstætt þessu frv., vegna þess, að það myndi álitið, að þá væri verið að setja einhverja vantraustsyfirlýsingu á hina fráfarandi stjórn, en jeg hygg, að svo sje alls ekki. Hún hefir skilist vel við sínar skyldur, og því meir sem hún hefir reynt til að styðja hina nýju stjórn í því að bæta hag landsins, því betra, en ábyrgð allra slíkra framkvæmda hvílir á hinni nýju stjórn.