10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 3. kjörbrjefadeildar (Magnús Guðmundsson):

Undir 3. kjörbrjefadeild komu 13 kjörbrjef, og deildinni kom saman um að leggja það til, að 10 þeirra væru samþykt án frekari athugasemda. Hins vegar þótti deildinni ástæða til að gera athuga semdir við hin 3.

Fyrst er kosningin í Strandasýslu. Þar hefir það viljað til í einum hreppi, að kross hefir verið gerður með blýanti, í stað þess að nota hinn lögskipaða stimpil. En af því að þetta gat ekki haft áhrif á úrslit kosninganna, fanst deildinni ekki ástæða til að gera frekari athugasemdir út af því, vildi að eins láta þessa getið, og leggur til, að kosningin sje tekin gild nú þegar.

Hinar athugasemdirnar snerta kosningu þingmanns Ísfirðinga og 1. þm. Reykvíkinga. Fyrst athugaði nefndin kosningu þingmanns Ísfirðinga. Hún hafði verið kærð af einum kjósanda, og það að henni fundið, og staðfest með vottorði 7 manna, að maður einn hafi annaðhvort heitið á kjósendur eða lofað fje, ef ákveðinn maður hlyti kosningu. Reyndar skal jeg geta þess, að frá einum þessara manna liggur fyrir gagnvottorð, og er á því að sjá, sem hann taki vottfestingu sína aftur. En kjörbrjefadeildin hafði auðvitað engin tök á að skera úr því, hvort vottorðið sje rjettara. Það verður að eins gert með rjettarrannsókn. Og af því að það er alvarlegur hlutur, ef beitt er mútum við kosningar, þótti kjördeildinni rjett, að stjórnin ljeti fram fara rannsókn á þessu máli, til þess að ganga úr skugga um, hvort vottorðin sjeu á rökum reist, og ljeti síðan hegna þeim manni eða mönnum, sem brotlegir kynnu að reynast. En af því að hvergi er að því vikið í vottorðunum nje neinar líkur eða átylla komin fram fyrir því, að sá, sem kjörbrjefið hefir fengið, hafi verið hið minsta við þetta riðinn, virtist kjördeildinni ekki rjett að hrófla við kosningu hans. Því að ef ætti að ónýta kosningu hvers þingmanns fyrir þá skuld að vottað er, að ólöglegum meðulum hafi verið beitt við kosninguna, gæti hver óhlutvandur maður fengið ónýtta kosningu þingmanns með því einu að kæra, þótt engin rök væru til. Um rannsóknina, sem deildin leggur til að hafin verði, var því sjerstaklega hreyft, að hana annist óháður maður. Deildin treystir stjórninni til að sjá um það. — Ef engin frekari mótmæli koma gegn kosningu þessari, verður þetta látið nægja, að svo komnu máli.

Þá er kosning 1. þm. Reykvíkinga, sem minst hefir verið á í öðru sambandi.

Jeg skil ekki, hvernig hv. þm. geta haldið því fram, að ekki sje hægt að gera út um kosningu þm. án þess, að þar sje einnig feldur dómur um kosningu hins samþingismannsins.

Frá kjördeildinni er um þessa kosningu engin tillaga, heldur skiftist hún í þessu efni, og munu sumir úr deildinni greiða atkvæði með, en aðrir á móti. Það, sem jeg því segi hjer, er að eins frá eigin brjósti.

Jeg álít, að það geti ekki komið til mála að ónýta kosningu 1. þm. Reykv. (Sv. B.). Yfir henni hefir ekki verið kært, við hana hafa kjósendur ekkert haft að athuga; þeir vilja hafa hann. Um þennan þm. (Sv. B.) verður því eins ástatt og um þann þm. í tvímenningskjördæmi, sem eftir stendur, er annar hefir sagt af sjer eða dáið. Og jeg get ekki skilið, að frsm. 1. kjördeildar (E. E.) skuli komast í vandræði út af því, að kjósa eigi einn mann í tvímenningskjördæmi, því að það getur sannarlega oft komið fyrir, að svo sje gert, t. d. þegar þm. deyr, segir af sjer, missir kjörgengi o. fl. Hver mundi nú dirfast að halda því fram, að hinn þingmaðurinn eigi að láta af þingmensku af þessum sökum? Slíkt væri fjarstæða. Eða þó annar þingmaðurinn bryti eitthvað af sjer, að hinn yrði að gjalda fyrir það án saka. Og hjer er um hliðstætt dæmi að tala. Hjer er enginn ágreiningur um kosningu þessa þingmanns, enginn ágreiningur þar um, hvað meiri hluti kjósenda hefir viljað, og þess vegna líka sjálfsagt, að við kosningu hans sje ekki hróflað og hann haldi sínu þingsæti óátalið.