10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Jónsson:

Mikill er munurinn á kjördeildunum og tillögum þeirra. Frá 1. kjörbrjefadeild koma fram óþarfar tillögur um rjettmæta kosningu, að reka út rjettkjörinn 1. þm. Reykv., og annan fyrir lítilfjörlega formgalla, eins og hefir verið fullkomlega sýnt fram á.

En hvað hinar snertir, má segja, að reynt sje eftir mætti að svala pólitískri hefnd eða hlaða undir flokka. Má þar telja mildilega að farið hjá 3. kjörbrjefadeild, að leggja ekki til frestunar, þar sem alvarleg kæra hefir komið fram frá mætum manni, sem ekki vill vamm sitt vita, um það, að fje hafi verið borið í kosninguna. Er þetta svo alvarleg kæra, að engin hefir slík komið fyrri, og því að mun frekari ástæða til tillögu um frestun heldur en gagnvart hinni annari kæru.

Þó geri jeg þetta ekki að tillögu minni, heldur tek jeg þetta fram, að jeg vil skilja mig frá hópnum; vil ekki, að eftirtíminn blandi mjer við gerðir þær, sem hjer eru fram að fara.

En að ástæða sje til að taka meira tillit til þessarar kæru en hinnar, það er dómur allra þeirra, sem fyrir utan standa. Og vel skilja Reykvíkingar þetta, og mun það sjást við kosningar.

En hvað Reykjavíkurkosninguna snertir, þá verð jeg að álíta, að ef Jakob Möller er ranglega kosinn, þá sje Sveinn Björnsson það líka, ekki af því, að ekki sje einn oft kosinn í tvímenningskjördæmi, heldur af því, að þetta er sama kosningin og sömu formgallarnir. Og sjeu þeir svo alvarlegir, sem orð hefir verið á gert, þá eiga þeir að hafa sömu afleiðingarnar, hvort sem atkvæðatalan er meiri eða minni, þótt annar hafi nokkrum hundruðum fleira.

Þó vil jeg ekki gera neina tillögu hjer um, því það er þó betra, að kjördæmið fái að halda einum, heldur en að báðir verði að víkja og kjördæmið látið fulltrúalaust.