26.02.1920
Efri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

14. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer þykir leiðinlegt, að hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) skuli ekki einu sinni geta sætt sig við þessa einu litlu tilraun til þess að reyna verðtoll hjer á landi. En ef hann er eins viss og hann segist vera um ómöguleik þessarar stefnu í framkvæmdinni og um siðspillandi áhrif hennar, þá virðist svo, sem hann hefði ekki getað fengið neitt betra vopn á verðtollinn en einmitt það, að lofa honum nú einu sinni að hlaupa af sjer hornin, fyrst hjer er að eins um stuttan tíma að ræða og takmarkað svið. Þá hefði hv. þm. (B. K.) getað sparað sjálfum sjer það ómak, að reyna að sannfæra menn um þetta, en látið reynsluna gera það í sinn stað, og fyrir henni hefðu menn beygt sig. En það er einmitt það, sem hjer er um að ræða, að láta reynsluna skera úr þessu máli, með tilraun um verðtollinn. Jeg skal að vísu fúslega játa, að það geti verið vafamál, hvort tilraun þessi hepnist eða ekki, þótt jeg sje hins vegar ekki samdóma hv. þm. (B. K.) um það, að það sje eins ákveðið útilokað og hann gefur í skyn. Og þess vegna er jeg því meðmæltur, að þessi aðferð sje reynd, og sæmileg reynsla ætla jeg að fáist á tveimur árum.

Hvað snertir erfiðleikana á innheimtunni, skal jeg taka það fram, að lögreglustjórinn hjer í Reykjavík, sem mun innheimta nálægt tvo þriðjunga af tekjum ríkisins, álítur, að vel sje kleift að innheimta þennan toll.

Veigamesta ástæðan á móti frv. — ef hún væri rjett — virðist mjer ótvírætt sú, að ekki sje þörf þessara tekna í ríkissjóð. En eins og skilið var við fjárlögin í fyrra, mun mega gera þar ráð fyrir einnar milj. króna halla, ef ekki hefði hamlað upp á móti honum hækkun símagjalda. En sú hækkun, að viðbættum þessum ráðgerða verðtolli, mun nema um 1 milj. kr., og er þá þó ekkert áætlað fyrir útgjöldum í fjáraukalögum.

Hv. minni hl. (B. K.) virðist vera alveg sjerstaklega illa við ákvæðin um leikföngin og skrautgripina. En hvar sem litið er íbúðarglugga hjer, t. d. fyrir jólin, munu menn geta sannfærst um það, að ekki muni einskær óþarfi að stemma eitthvað stigu fyrir sumum þeim innflutningi. Um margt af þessu dóti gildir það líka, að það er mjög fyrirferðarmikið, en hins vegar mjög varhugavert að taka upp mikið skiprúm frá nauðsynlegum flutningi í þeirri skipaeklu og farmgjaldsdýrtíð, sem nú ríkir.

Ein ástæða hefir einnig verið færð fram gegn frv., sem sje erfiðleikarnir við innheimtuna. Jeg hefi áður bent á ummæli lögreglustjóra, og get bætt því við, að jeg fyrir mitt leyti er ekkert hræddur um, að það verði mikið starf fyrir stjórnarráðið að leiðbeina innheimtumönnum í þessu efni. Það ætti ekki að vera verra að skýra eða skilja ákvæði þessara laga en t. d. flokkunina í vörutollslögunum.

Hvað brtt. snertir, vildi jeg leyfa mjer að mælast til þess, að þær yrðu ekki samþyktar, því það mundi verða til þess að drepa málið.

Um athugasemd hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) út af sambandi þessa frv. við alþjóðapóstlögin vil jeg geta þess, að jeg fæ ekki sjeð, að þar þurfi að verða nokkur árekstur, því ekki þurfa þessi lög fremur að koma í bága við póstlögin en t. d. vörutollslögin, og mun þessi hv. þm. (B. K.) að minsta kosti ekki halda slíku fram um þau lög. Og aðrir hafa ekki orðið til þess að hreyfa þessari athugasemd. Mönnum er einnig ætlað að sýna fulla reikninga fyrir öllum póstkröfusendingum, ef þess þarf, og er það því engin frágangssök að ákveða verðið og gjaldið af því.

Jeg vildi svo leyfa mjer að mælast til þess, að hv. deild leyfði frv. að ganga fram breytingalaust.