26.02.1920
Efri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

14. mál, stimpilgjald

Sigurður Eggerz:

Hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) hefir ritað langt nál. gegn frv. þessu, og er þar rifjuð upp öll gamla deilan á milli verðtolls og vörutolls. En þar sem gamla stjórnin meðal annars vildi með frv. þessu gera tilraun í þá átt, hvort nokkrir erfiðleikar væru á því að innheimta verðtoll, en hefir hins vegar ekki tekið ákveðna afstöðu til þess, hvorri meginreglunni yrði bygt á í framtíðinni, þá sje jeg ekki ástæðu til að fara ítarlega inn á þessa gömlu deilu. Um innheimtuna vil jeg þó segja það, að mjer sýnist, að ýmsir hinir sömu örðugleikar sjeu á innheimtu verðtollsins og vörutollsins, þar sem mismunandi tollur er á hinum ýmsu flokkum, og vegna vörutollsins þyrfti því einnig meira tolleftirlit en vjer höfum nú.

Jeg hefi sýnt rækilega fram á það í ræðu þeirri, er jeg flutti um allan fjárhag landsins, að full þörf er á þessum skatti, og að því er snertir þá ástæðu minni hl., að ef aukið sje við skattana, þá sje einnig aukið við útgjöldin, þá vil jeg leyfa mjer að benda á, að útgjöldin hafa þegar verið ákveðin fyrir fjárhagstímabilið 1920 og 1921 í fjárlögum þeim, sem nú gilda, og býst jeg við, að enginn vafi leiki á því, að útgjöldin muni nálega öll koma til útborgunar.

Hv. þm. (B. K.) skoðar verslunarsambönd kaupmanna eins og helgidóm, sem enginn megi koma nálægt, en löggjöfin hefir þegar opnað þann helgidóm með því, að samkv. gildandi lögum er lögreglustjórum heimilt að krefjast að fá að sjá „faktururnar“. Auðvitað er það og ljóst, að engum dettur í hug, að lögreglustjórar fari að skýra frá þessum samböndum út um hvippinn og hvappinn. Annars berum vjer, sem ekki erum verslunarfróðir, ekki eins mikla lotningu fyrir helgidómunum eins og hv. 2. þm. G.-K. (B. K.).

Hv. þm. (B. K.) telur ekki rjett að leggja skatt á leikföng og segir, að eitthvað verði Reykjavíkurbörnin að hafa sjer til gamans, er þau geta ekki leikið sjer úti í náttúrunni, eins og hann kemst svo skáldlega að orði. En þetta er hreinasti hjegómi. Jeg hefi tekið eftir því heima hjá mjer, að það er aldrei nema eitt leikfang í einu, sem „interesserar“ börnin, og hin hverfa þá í skugga, eru brotin, fleygt upp á loft og týnast. Þannig fer mikið af þeim til ónýtis. Börnunum líður sannarlega ekki betur, þótt þau fái ógrynni af leikföngum; það göfgar þau ekki á neinn hátt. Og flestir munu nú tekjustofnamir vera ranglátir, ef ekki má leggja skatt á leikföngin.

Jeg mintist áðan á innheimtuna. Jeg vil bæta því við, að jeg átti tal um þetta við lögreglustjóra áður en jeg fór af stað með frv., og taldi hann engin vandkvæði á að innheimta tollinn, ef gjaldið væri jafnt á öllum vörunum, en auðvitað veldur það því meiri örðugleikum, sem flokkarnir eru fleiri, sbr. og vörutollinn. En það er öllum ljóst, hver ógrynni flytjast hingað af skartmunum, og þótti því stjórninni nauðsynlegt að koma hærri skatti á þá vöru. Skatturinn á gulli er nú reiknaður eftir þyngdarlögmálinu, svo það verður hjer um bil skattlaust. Það er ekki hægt að neita því, að munir eins og armbönd, nælur og annað gullstáss eru algerlega óþarfir. Og menn þurfa ekki annað en fara í þær búðir, sem þetta selja, til þess að sjá, hvílíkum auði fjár er eytt í slíkan óþarfa, og að fólkið er óspart á fje, er um það er að ræða. Það er ekki að eins hjer, heldur einnig annarsstaðar, sem þetta veldur háværum kvörtunum.

Upp á síðkastið hafa margar greinar birst um þetta efni í merkum útlendum tímaritum.

Hv. þm. (B. K.) gerði ráð fyrir því, að kaupmenn mundu sýna skakka reikninga. Jeg get ekki trúað því, að verslunarstjettinni, það er að segja hinum heiðarlega hluta hennar, dytti þetta í hug. Því enda þótt jeg hafi ekki vináttu þessarar stjettar, af því að jeg hefi haft einurð til þess að halda því fram, að hún hafi grætt á stríðinu, eins og allir vita, þá hefi jeg enga ástæðu til að gera þessari stjett svo þungar getsakir, að hún fari að falsa skjöl til þess að losna við rjettmæt gjöld. Auðvitað koma tollsvik hjer fyrir, eins og alstaðar annarsstaðar. Sem betur fer, þykja þau ekki prýði á kaupmannastjettinni, enda eru allir heiðarlegir kaupmenn lausir við þau. Án efa verður að skerpa tollgæsluna að mun í hinum ýmsu kaupstöðum, og þá sjerstaklega í Reykjavík, en jeg efast ekki um, að það mundi borga sig. Sem sagt, þá vona jeg og treysti því, að hv. deild sje það ljóst, að landssjóður hefir brýna þörf fyrir auknar tekjur. Það er nú í augnablikinu aðalatriðið, en með þessu frv. er ekki tekin framtíðarákvörðun um verðtollsstefnuna eða vörutollsstefnuna. En deildin hlýtur að vera mjer samdóma um það, að heppilegt væri, að stjórnin aflaði sjer reynslu að því er snertir innheimtuna á þessum skatti. Þar sem öll stjórnin situr hjer í bæ, er hægt að fá fljóta reynslu á því, hvernig innheimtan muni gefast. Jeg man, að þegar jeg flutti stimpilgjaldsfrv. það, sem nú er orðið að gildandi lögum, þá reis stormur gegn því í háttv. Nd., og ekki síst var því teflt fram gegn því, að landssjóð munaði ekkert um tekjuaukann af því, en á síðasta ári var hann þó rúm milj. Þetta frv. hefir einnig mætt harðri mótspyrnu, og nú síðast frá hv. 2. þm. G.-K. (B. K.), en þar sem reynslan er góð af gildandi lögum í þessu efni, þá vona jeg, að háttv. deild læri af reynslunni og samþykki frv.