25.02.1920
Efri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

45. mál, bann á flutningi varnings sem sýkingarhætta getur stafað af

Frsm. (Halldór Steinsson):

Jeg lít fyrir mitt leyti svo á, að engin nauðsyn hafi verið fyrir stjórnina að koma fram með frv. þetta. Því samkvæmt sóttvarnarlögunum frá 1903 hefir stjórnin heimild til að banna innflutning á slíkum vörum. Jeg lít þess vegna svo á, að stjórnin hafi þessa heimild samkvæmt eldri lögum, því þar er það einmitt rauði þráðurinn að leyfa stjórninni að gera allar ráðstafanir. er þörf er á, ekki að eins hvað við kemur sjúkum og dauðum mönnum, heldur einnig dauðum hlutum. En þar sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) lítur svo á, að stjórnin hafi ekki slíka heimild, hefir allsherjarnefnd ekki sett sig á móti frv. þessu. Einu breytingarnar, sem nefndin hefir gert á frv., eru þær, að hún hefir sett inn í það sektarákvæði, sem ekki voru áður, og hækkað þau að miklum mun frá því, sem ákveðið er í lögum frá 1902 gegn samskonar brotum.

Sektirnar eru 50–5000 krónur. Þegar litið er á, hvað brot þessi geta leitt af sjer mikið ilt, óhamingju, heilsutjón og dauða, þá dylst engum, að sektir þessar eru alls ekki of háar.

Allsherjarnefnd mælir með því, að frv. þetta nái fram að ganga með þessum breytingum.