18.02.1920
Neðri deild: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

17. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í kaupstöðum

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Herra forseti! Jeg vænti, að jeg þurfi ekki að hafa hjer langa framsögu.

Eins og bent er á í ástæðunum fyrir frv., hefir bæjarstjórnin á Ísafirði ekki sjeð sjer fært að leggja gangstjettir og holræsi, nema jafnframt sjeu samin lög um gjald til bæjarsjóðs, til lúkningar kostnaðinum. Frv. er samið eftir samskonar lögum, frá 1917, sem samþykt hafa verið fyrir Akureyrarkaupstað.

Allir vita, hversu hreinlætið er mikils virði, en þær þrifnaðarbætur, sem hjer um ræðir, voru ekki framkvæmanlegar, nema bæjarstjórninni væri heimilað að leggja til þess gjöld á lóðir og hús í bænum. Þar sem samskonar lög hafa verið samþykt fyrir Akureyrarkaupstað, vona jeg, að frv. þetta fái góðar viðtökur, svo hægt verði að byrja á verki þessu með vorinu.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið frekar, en óska, að frv. verði vísað til 2. umr.