10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Rannsókn kjörbréfa

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætla ekki að fara að deila við háttv. frsm. 3. kjörbrjefadeildar (M. G.), enda er jeg í sömu deild. En jeg vidi tilfæra ástæðuna fyrir því, að jeg get ekki fallist á till. kjördeildarinnar. Jeg ætla ekki að fara út í kosningu háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.), heldur athuga hana í sambandi við kosningu háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.), sem nú er búið að ógilda. Hv. frsm. (M. G.) bar það fram, að yfir kosningunni hefði ekki verði kært, og kjósendur kærðu sig ekki um skifti. Kosning hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) var ekki ógilt til að þóknast kjósendum. Ef kæran er fram komin vegna þess, að kærendur vildu skifti, þá má á það benda, að það voru einir 5 menn, og verða kjósendur í Reykjavík ekki dæmdir eftir þeim. Það voru formgallar einir, sem orsökuðu ógildinguna, og þeir sömu formgallar eru á kosningu hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.). Það verður því í alla staði óviðkunnanlegt að kjósa að nýju um einn mann, en láta hinn sitja, sem kosinn var sömu gölluðu kosningunni. Dæmið, sem háttv. frsm. (M. G.) nefndi og vildi skýra hliðstætt, getur ekki komið til mála. Þar eru óviðráðanleg atvik, sem gera nýja kosningu nauðsynlega, en hjer er um að ræða atvik, sem við ráðum yfir.

Þegar vikið er frá því, sem rjett er, þá er oft siður að bera fyrir sig vilja kjósenda, og svo er einnig gert í þessu máli. En vilji kjósenda í þessu sambandi er efnislaust orð. Þegar búið er að ónýta kosninguna að hálfu leyti, þá verður að kjósa bundinni kosningu milli 2 manna. Með því er vilji kjósenda mjög svo heftur, en ef kosið væri algerlega að nýju, þá hefðu þeir frjálsar hendur. Ef fara ætti eftir vilja kjósenda, þá ber að ónýta alla kosninguna, og ef fylgi háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) reyndist eins haldgott og það varð mikið, þá getur hann gengið óhræddur til þeirra kosninga.

Jeg þarf ekki að gera neina till. í þessu máli; það nægir, að jeg greiði atkvæði á móti till. deildarinnar.