26.02.1920
Efri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

17. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í kaupstöðum

Einar Árnason:

Jeg vil geta þess, að jeg hefi sent frá mjer í prentun brtt. við frv., sem kemur fyrir næstu umr.

Fer brtt. fram á að breyta að eins fyrir sögninni, og er á þá leið, að í staðinn fyrir „á Ísafirði“ komi: í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík og Akureyri. Ástæðan fyrir brtt. þessari er sú, að við þm. Eyjafjarðarsýslu fengum á síðustu stundu skeyti um að koma fram með svipað frv. fyrir Siglufjarðarkaupstað. Við komum okkur því saman um að leggja til þessa breytingu á frv., sem sje að láta heimildina ná til allra kaupstaða, sem ekki hafa þegar fengið slík lög, því að það er líklegt, að fleiri kaupstaðir komi á eftir með sömu beiðni smám saman. Viljum við með þessu losa þingið við óþarfa umstang framvegis, og sýnist það liggja beint við, með því að öll slík lög eru og munu væntanlega verða á einn veg.

Jeg mun ekki gera frekari grein fyrir brtt., þótt hún komi ekki fram fyr en á næsta fundi.