21.02.1920
Neðri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

27. mál, sáttanefndir

Flm. (Sveinn Björnsson):

Þetta frv. fer fram á breytingu á grein, sem er orðin úrelt. Þessi grein stendur í tilskipun 20. jan. 1797, 25. gr. Jeg ætla að leyfa mjer að lesa hana upp:

„Hver og einn viðkomenda, sem er innan forlíkunartakmarka, skulu sjálfir koma fyrir sættanefndir; þó má það leyfilegt vera, þá hlutaðeigandi er löglega hindraður, að senda annan vandaðan mann fyrir sig, er hafa verður ánægjanlega fullmakt til að sættast á málið vegna þess, er honum hefir fullmakt gefið; en að öðru leyti skal það bannað vera að taka með sjer málfylgismenn (prokuratores), eður senda þá fyrir sig, til að túlka mál fyrir forlíkunarnefndinni“.

Það kom brátt í ljós, að ákvæði þetta þótti óhyggilegt, og var því breytt í Danmörku árið 1823. En því hefir ekki verið formlega breytt hjer. Mönnum, sem hafa átt að mæta fyrir sáttanefnd, en hafa átt heima utan sáttaumdæmis, hefir hingað til samkvæmt venju verið leyft að láta málaflutningsmenn mæta fyrir sig, ef þeir ekki geta mætt sjálfir. En nú fyrir skömmu var því mótmælt, að málaflutningsmaður mætti mæta fyrir mann, sem átti heima utan sáttaumdæmis. Dómurinn áleit það ekki heimilt, og málið varð því ónýtt. Yfirdómurinn tók þetta ákvæði strangt og áleit ekki hægt að fara fram hjá því, er mótmælin komu fram, og því verða að brjóta gamla venju. Það er mikið óhagræði í því, að ferðast langar leiðir, eða fá mann, sem ekki er vanur, til að mæta fyrir sig. Reyndin verður sú, að menn snúa sjer til málaflutningsmanna, og þeir fá aftur einhverja, sem ekki eru málaflutningsmenn, til að mæta fyrir sig. En reynslan er sú, að sætt verður venjulega ekki, því þeir geta ekki sæst á annað en það, sem málaflutningsmaðurinn hefir leyft þeim fyrirfram. Það er því síður en svo, að umrætt ákvæði nái sínum upprunalega tilgangi, að fækka málum, heldur verður það til að fjölga málum. Þetta er mikið óhagræði fyrir allan almenning, en verður að vera, vegna dómsins, ef því er ekki breytt.

Jeg ætla ekki að fara frekari orðum um þetta, því málið er mjög einfalt. Jeg mælist til þess, að það fari ekki í nefnd; æskilegast væri, að það næði fram á þessu þingi. Vona jeg, að því verði leyft að fara nefndarlaust til 2. umr.