10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla að svara því örfáum orðum, sem hv. frsm. (M.G.) sagði, að sjer hefði komið á óvart afstaða mín í þessum málum. Hann hefði ekki þurft að láta sjer koma það á óvart. Jeg sagði það í deildinni, að mín spá væri sú, að þingið snerist nú um út af hinum meinlausa galla á Reykjavíkurkosningunni, en rendi mútuhnútunni niður sem gómsætum brjóstsykri. Mátti hann af þessu ætla, hvar mig væri að hitta í þessu máli.

Ísafjarðarkosningin er ljóst dæmi þess, hvar fresta á kosningarúrslitum. Hjer þarf greinilega skýrslna við; það þarf skýrslur um það, hvort mútur hafi farið fram eða ekki, og með hvaða hætti, ef fram hafa farið. Þetta er rannsóknarefni, og ber því að fresta fullnaðarályktun um kosninguna, þangað til skýrslur fást, og er öllum vitanlegt, að þær eru fáanlegar.

Þess hefir áður verið getið um Reykjavíkurkosninguna, að sami galli er á kjöri beggja þingmanna, og á því eitt yfir báða að ganga. Alt fimbulfamb um, að kosning hefði getað farið svo og svo, eru staðlausu stafir. Það er ekki ástæða til að ætla annað en að þessi 14 atkvæði hafi skifst hlutfallslega milli þingmannaefna. Atkvæðatölur þeirra hæstv. forsætisráðh. (J. M.) og háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) hefðu þá orðið hlutfallslega þær sömu og háttv. 2. þm. (Jak. M.) kosinn eigi að síður. Þetta er eina skynsamlega skýringartilraunin, og verða þeir að sæta henni, sem hugsa vilja, en hinum er betra að hætta sjer ekki út á þá „hálu braut“ að skýra þetta mál.

Það þing, sem ónýtti kosningu hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.), verður líka að ónýta hina, því þær eru sama eðlis. Jeg ætla ekki að bera fram neinar till. hjer, og eru fyrir því þær ástæður, sem jeg tilfærði í síðustu ræðu minni. Hún var svo ljós, að hana mega allir muna, þeir er heyrðu. Jeg tel mjer ekki skylt að sjá um samræmið milli rjettlætisverka!! hv. þm.

(Hjer vantar inn á milli frá þingskrifurunum ræðu, er Þórarinn Jónsson flutti).