10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

Rannsókn kjörbréfa

Benedikt Sveinsson:

Það var áður við umræðu þessa máls skorað á mig að leggja fram frekari sannanir fyrir framboði mínu og löglegu kjöri í Norður-Þingeyjarsýslu.

Jeg leyfi mjer að lesa upp þrjú skeyti í þessu skyni.

Hið fyrsta er viðurkenning yfirkjörstjórnar fyrir framboði mínu, dagsett í Skógum í Öxarfirði 2. október í haust og hljóðar svo:

„Meðtekið framboð yðar til þingmensku hjer næsta kjörtímabil.

Yfirkjörstjórn Norður-Þingeyjarsýslu“

Þá fekk jeg annað símskeyti frá manni þeim, er jeg hafði falið að afla mjer meðmælenda, herra Birni Kristjánssyni að Kópaskeri. Skeyti hans er dagsett á Brekku í Núpasveit 13. október 1919 og er á þessa leið:

„Hefi afhent yfirkjörstjórn meðmælendaskjöl. Framboðið fullgilt. Enginn annar frambjóðandi enn.

Björn“.

Þá er framboðsfresturinn var liðinn, símaði jeg yfirkjörstjórn fyrirspurn um það, hvort fleiri væri í kjöri, en jeg fekk svo felt svar frá Gunnari Árnasyni í Skógum, formanni yfirkjörstjórnar, og er það dagsett í Skógum 21. október í haust:

„Enginn mótframbjóðandi hjer.

Bestu kveðjur.

Gunnar“.

Frekari gögn þykist jeg nú ekki þurfa fram að færa fyrir því, að framboð mitt hafi verið í alla staði formlegt, og býst við, að það verði ekki vefengt úr þessu.

Þá ætla jeg að minnast fáum orðum á aðaldeiluatriðið, sem hjer liggur fyrir; það er um galla þá, sem eru á kosningunni í Ísafjarðarkaupstað. Hv. frsm. (M. G.) sagði, að ekki þyrfti að óttast, að hjer væri um slíkar misfellur að ræða, sem hefði getað ráðið úrslitum í kosningunni, en þegar munurinn var ekki meiri en 16 atkv., virðist nú ekki þurfa svo mikið til. Að vísu skal jeg ekkert fullyrða um þetta, en þó jafnframt skírskota til kæru þeirrar, sem fram er komin; þar er sagt, að aðferð þeirri, sem þar er nefnd, hafi verið beitt svo mjög, að það hafi hlotið að ráða úrslitum. Enn fremur skaut jeg því fram, að kærandi hefði sagt mjer, að hann hefði fleiri gögn í þessu máli; hv. frsm. (M. G.) spurði þá, hví hann hefði ekki selt mjer þau í hendur, en það er auðvitað af því, að þetta kom mjer ekki neitt sjerstaklega við, frekar en hverjum öðrum þm; en þessi maður segir sjálfur í kæru sinni, að hann hafi fleiri gögn fram að bera, ef með þurfi, og er því full ástæða til fyrir þá nefnd, sem um þetta mál fjallar, að skora á hann að fá að sjá þau, eða þá að leggja þau fyrir þá nefnd, er síðar fjallar um málið.

Hvað því viðvíkur, sem hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) gat um, að það hefði leikið á ýmsu við kosningar þar vestra, hvor borið hefði hærra hlut, þá vil jeg benda á, að við þessar síðustu kosningar um nýárið var einmitt skorað á kjósendur þar, af flokki þeim, er hann studdi, að sýna nú skýrt, hverjum órjetti þeir hefðu verið beittir með mútubrigslunum, og það því frekar, sem sonur ákærandans var í kjöri. Jeg hefi hjer með höndum frásögn í prentuðu blaði um borgarafund á Ísafirði, er háður var rjett fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, þar sem skýrt er frá því, hve mikil áhersla þar var lögð á kæruatriðin við þingmannskosninguna. Og þó varð niðurstaðan öll önnur, er til kom, og sýndi nokkuð, eins og jeg drap á áðan, hversu alþýðan hafði skift um fylgi sitt við flokkana. Úrslitin urðu önnur en álitið var að verða mundi. Jeg vil ekki fella neinn fullnaðardóm um þetta mál fyr en það er betur rannsakað, og heyrðist mjer á hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), sem hann mundi sjálfur æskja, að rannsókn fari fram. Vil jeg því ánýja tillögu mína, að málið sje þegar rannsakað, en frestað að taka kosninguna gilda á meðan. Hitt tel jeg fjarstæðu, að þingið felli dóm að órannsökuðu máli um leið og það ákveður, að rannsókn skuli þó hafin, og tekur jafnhörðum höndum á lítils háttar formgöllum, að það gerir kosningu annars þingmanns þar fyrir ógilda.