23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Jakob Möller:

Jeg get byrjað þar, sem háttv. þm. Borgf. (P. O.) endaði. Þingið hefir gefið út óþarflega mörg lög, sem stjórnin hefir ekki farið eftir. Jeg lít svo á, að þetta frv. sje fram komið til þess að neyða menn til að spara. Það er gott og blessað. En jeg minnist þess jafnframt, að stjórninni var falið að hafa eftirlit með verði hjá heildsölum, og hefi jeg ekki orðið þess var, að hún hafi sint því minstu vitund, hvernig þeir hafa selt vörur sínar. Það er harla lítils vert að setja allskonar reglur eða lög, ef ekkert er gert til þess að framfylgja þeim.

Menn mega ekki gera sjer falskar vonir um árangur þessa frv., t. d. að slíkt innflutningsbann geti haft áhrif á myntverðið, þó að það hafi ef til vill vakað fyrir einhverjum, og frv. sje jafnvel ef til vill fram komið fyrir þann misskilning. Þó að innflutningurinn yrði takmarkaður, mundi það ekki hafa nein áhrif á verðlag gjaldeyrisins, dönsku krónunnar, sem vjer notum sameiginlega með Dönum. Í því efni lútum vjer sömu lögum og Danir, en verslun vor við útlönd svo örlítil í samanburði við ríkisviðskifti Dana, að slíkar ráðstafanir af vorri hálfu væru alveg þýðingarlausar. En þetta gæti miðað til sparnaðar, og það álít jeg gott.

Því hefir verið hreyft, að skipuð yrði sjerstök nefnd til þess að annast um framkvæmd þessara laga. En jeg verð að lýsa yfir því, að jeg er nefndarskipun mótfallinn. Hjer getur ekki verið um annað að ræða en að banna innflutning á óþörfum vörum. Nauðsynjavörur koma þar ekki til greina. Um þær er svo háttað, að þarfirnar ákveða innflutninginn, og kemur því ekki til greina, að neina nefnd þurfi til að meta það, hvað mikið þurfi af þeim.

Mynd sú, sem háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) var að mála á vegginn, af ástandinu í Danmörku, þarf engan að hræða, því að hún á ekki við hjer. Þó að Danir hafi flutt of mikið inn af ýmsum nauðsynjavörum síðasta ár, og eigi því miklar birgðir óseldar af kaffi o. fl., þá eru alveg sjerstakar ástæður til þess. Þessi mikli innflutningur Dana kemur til af því, að þeir hugðust mundu geta selt ógrynni af slíkum vörum til Þýskalands og annara landa Mið-Evrópu, þegar fullur friður væri kominn á. Hingað mundi enginn fara að flytja vörur í því skyni. Hv. þm. (E. E.) heldur þó ekki, að menn fari að „spekúlera“ í því að senda t. d. kaffi til Grænlands?

Hjer verður að eins um það að ræða að banna innflutning á ákveðnum vörutegundum, og það getur stjórnin gert án þess að hafa nokkra nefnd til aðstoðar.