23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður, þar sem málið hefir fengið góðar undirtektir.

Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) ljet það á sjer skilja, að rjett væri að fara lengra í takmörkun innflutnings en frv. ætlast til. En á þetta get jeg ekki fallist. Hins vegar verð jeg að geta þess, að það er álitamál, hvað er þörf vara og hvað óþörf. Jeg lít svo á, að þegar flutt er of mikið inn af vörunni, sje hún óþarfavara, og fellur hún þá hjer undir.

Um orðin „ef stjórnin notar þau“ er það að segja, að ekki er ætlast til, að stjórnin láti lögin ónotuð. En nefndin getur ekki skipað henni að nota þau.

Jeg skal ekki eyða frekari orðum að því, hvort nauðsynlegt væri að skipa sjerstaka innflutningsnefnd til þess að annast eftirlitið. Eitt er víst, að stjórnin verður að fá einhverja aðstoð; en jeg hygg, að best sje að láta hana eina um það, hvernig þeirri aðstoð verður fyrir komið.

Ekki var ætlast til, að frv. þetta hefði áhrif á gengi myntarinnar. Verslun vor er svo lítil í hlutfalli við verslun Dana, að til þess getur ekki komið, og var fjárhagsnefndin í engum vafa um þetta.