25.02.1920
Neðri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Eiríkur Einarsson:

Jeg hefi ekkert frv. borið fram á þessu þingi og engar brtt., hvorki í þessu máli nje öðrum. Er það af því, að jeg vil sem minsta íhlutun eiga um löggjafarstarf þessa þings, því öllum málum er flaustrað hjer af lítt athuguðum, enda ekki á öðru von, þegar þingið situr svo stuttan tíma, en mörgum málum rutt inn á það. En jeg vil ekki láta segja það um mig, að jeg vilji ekki sýna nauðsynjamálum þjóðarinnar fulla alúð, og ætla því að fara nokkrum orðum um frv. það, er hjer er til umræðu.

Jeg vakti máls á því við síðustu umr. hvað fyrir mjer vekti. Ef þetta frv. á að koma að notum, þá verður það að sníðast um. Lögin ættu ekki einungis að vera heimildarlög, heldur ákveðin fyrirskipun, að það skyldi gert, sem þau fara fram á, og um leið ákvæði um að skipa fasta og örugga nefnd til að sjá um allan innflutning til landsins. Það er ógerningur fyrir stjórnina að ákveða, hvað skuli teljast óþarfavörur og hvað ekki. Það verða menn að gera, sem vita nákvæmlega um þarfir og birgðir landsins af hverri vörutegund fyrir sig, en slíkt kostar starf og rannsókn. Það er ekki nóg að banna glysvarning, heldur alt það, sem óþarft er í það og það skiftið.

Það var minst á kaffi til Danmerkur við síðustu umr., og vildu sumir segja, að það hefði átt að seljast til Þýskalands. Jeg hefi reynt að afla mjer upplýsinga um þetta og hefi komist að raun um, að svo hafi ekki verið. Það var kaffiþurð með Dönum, og keptust þá allir við að flytja inn kaffi, og af því stafaði þessi kaffiofhleðsla Dana. Hjer getur eins orðið, og hefir orðið, og dæmið, sem taka má, er kaffi. Hjer varð kaffilaust, en síðan kom alt of mikið, og vill svo verða um fleira, því allir reyna að flytja inn vöruna, sem vantar í svipinn, og keppast um það, þangað til of mikið er orðið af henni. Jeg hefi heyrt, svo að jeg nefni dæmi, að ein vörutegund, sem teljast verður nauðsynleg, skósverta, sje hjer svo mikil, að hún nægi til 2 ára. Til þess að hindra þetta verður að skipa sjerstaka nefnd, sem hefir eftirlitið meira en að nafninu til.

Jeg tók það fram í byrjun ræðu minnar, að jeg kæmi ekki með brtt. eða frv. í þessa átt eða neina aðra, því jeg hefi vanþökk á lagastarfi þingsins, eins og því er nú háttað. Jeg mun ekki greiða atkvæði með frv., bæði af þessari ástæðu, og eins af því, að jeg tel það ekki svo vel úr garði gert sem skyldi. Hefi jeg tilgreint, að hverju leyti mjer þykir því helst ábótavant. Jeg vil ekki heldur greiða atkv. á móti því, og er það vegna þess, að margt er gott í frv. og stefnir í rjetta átt. Jeg greiði því ekki atkv., og verður hæstv. forseti að meta það eftir því, sem honum þykir rjettast.