25.02.1920
Neðri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Forsætisráðherra (J. M.):

Það getur verið rjett hjá háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), að skipa þurfi nefnd, ef takmarka á innflutning á óþarfavöru, nokkurskonar innflutningsnefnd af nýju. En slíkt er ekki útilokað með frv. Stjórninni er veitt heimild til þess, og eins getur stjórnin ákveðið, hvað skuli teljast óþarfavara í hvert skifti.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort stjórnin sjer sjer fært að nota þessa heimild, en þó er gott að hafa hana. Skiprúm er oft alt upptekið af óþarfavarningi, og verður það til þess, að nauðsynjavörur verða að sitja á hakanum. Þetta hefir komið sjer illa. Eimskipafjelag Íslands, sem hefir áhuga á því að flytja það helst til landsins, sem til gagns má verða, hefir fundið til þessa. En með þessum heimildarlögum getur stjórnin ráðið bót á þessu.

Gagnvart háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) skal jeg taka það fram, að bankarnir sjá fulla nauðsyn á að takmarka eyðslu þessa varnings og vilja heldur láta fje sitt í framfarafyrirtæki, en þeir geta einatt ekki við það ráðið. Það er ómögulegt að neita þeim mönnum um fje, sem eiga inni í bankanum.