21.02.1920
Neðri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

30. mál, mótorvélfræði

Ólafur Proppé:

Herra forseti! Mjer þykir mjög vænt um frv. þetta, enda hafði jeg hugsað mjer að koma fram með líkt frv., en nú hefir verið tekið af mjer ómakið, svo að jeg finn mjer skylt að votta þakklæti mitt fyrir. Jeg hefi sjálfur haldið því fram, bæði í ræðu og riti, hvílík nauðsyn væri á því, að vjelamenn hefðu eins mikla kunnáttu og skipstjórar. Mótorvjelar eru nú mjög dýrar, og því full ástæða til, að krafist sje nokkurrar þekkingar einnig á þessu sviði. Fjárhagslegt tjón, sem stafar af því, að óhæfir menn eyðileggja vjelarnar, er óútreiknanlegt, fyrir utan hið óbeina tjón, og oft geta líf manna verið í veði vegna vankunnáttu vjelstjóra. Laun þessara manna eru nú það há, að heimta má fylstu kunnáttu, eins og hjá bestu skipstjórum. Jeg vona, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi og að því verði vísað til 2. umr. nefndarlaust.

Till. kom fram um að vísa málinu til sjávarútvegsnefndar.