21.02.1920
Neðri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

31. mál, lögreglusamþyktir

Lög nr. 18, 20. okt. 1905, þar sem þetta ákvæði stendur:

„enda búi sýslumaður þar“, virðast bera það með sjer, að andi þessarar setningar hefir þá verið álitinn þýðingarmeiri en hann er nú. Því með breyttum staðháttum hefir Keflavík vaxið upp úr því. Þá voru engir vegir lagðir og apall, illur yfirferðar, svo það tók fulla 7 tíma að komast frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Þá var heldur enginn sími, svo ekki var hægt að koma orðum nje skeytum á skömmum tíma. Nú horfir það öðruvísi við. Besti bílvegur, sem til er á landinu, er nú milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur, svo komast má það á 1 klukkutíma. Þessi vegur er oftast vel ferðafær fyrir bíla, jafnvel þó snjóalög sjeu, og sími er nú lagður milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur, svo afgera má sakirnar á svipstundu. Þess vegna finst mjer ákvæðið ekki eiga við nú. Keflavík er lítið mannfleiri nú en þá, en þó finst mjer nú frekari þörf, að þessir 600 íbúar fái rjettarbót, til þess að geta komið skipulagi á ýms atriði, til dæmis vegagerðir, húsaskipun og fleira. Öll sanngirni virðist því mæla með því, að þeim verði veitt undanþága í þessu efni. Líka er það skilyrði fyrir hendi, sem ekki er algengt, að hreppstjóri er búandi á staðnum, og hefir það talsverða þýðingu. Keflavík er miðstöð alls viðskiftalífs á Reykjanesskaga, og er því full ástæða til að ætla, að hún muni eiga framtíð fyrir sjer. Ef höfn verður gerð á Reykjanesskaga, þá verður hún þar. Þetta atriði bendir til þess, að Keflavík hafi skilyrði til að fá það, sem þetta frv. fer fram á. Jeg ætla ekki að orðlengja meira um þetta, en vona, að frv. fái að ganga til 2. umr., helst án nefndar.

Tillaga kom fram um að vísa málinu til allsherjarnefndar.