24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

37. mál, manntal á Íslandi

Frsm. (Sveinn Björnsson):

Jeg ætla, fyrir hönd allsherjarnefndar, að skýra stuttlega frá því, hvers vegna frv. þetta er fram komið. Frv. er þannig fram komið, að hagstofustjóri hefir samið það og greinargerð, síðan sneri hann sjer til hæstv. fjármálaráðherra, en hann afhenti allsherjarnefnd það. Allsherjarnefnd hefir athugað það og komist að þeirri niðurstöðu, að það væri æskilegt, að það næði fram að ganga. En þar sem manntal á fram að fara seint á þessu ári, vildi nefndin ekki draga að leggja það fram fyrir deildina í því formi, sem hagstofustjóri afhenti það, því hann er vandvirkur maður, og vel frá frv. gengið. Ef nefndin við nánari íhugun finnur ástæðu til að breyta því, þá getur hún gert það seinna. En þar sem manntal á fram að fara á þessu ári, þarf að flýta frv., og vildi jeg mælast til þess, að hæstv. forseti geri alt, sem hann getur, til að flýta því, svo það komist í gegnum báðar deildir.