25.02.1920
Neðri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

43. mál, póstlög

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Með því að sá, er kosinn var framsögumaður þessa máls af samvinnunefnd samgöngumála, er flytur frv. þetta, hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), er veikur, hefi jeg verið beðinn að fara nokkrum orðum um málið.

Frv. þetta fer fram á að bæta við ákvæði í póstlögin um að skylda öll skip, sem eru íslensk eign eða leigð af mönnum, búsettum hjer, þegar þau eru afgreidd hingað frá erlendri höfn, til þess að gera pósthúsum þar aðvart um brottför sína og til þess að taka hingað brjefapóst. Nú hvílir slík skylda ekki á þessum skipum nema um flutning á pósti frá Danmörku samkvæmt þargildandi lögum. Greinargerð frv. ber það með sjer, að horfur eru á því að erfiðleikar verði framvegis á brjefapóstflutningi hingað frá öðrum löndum en Danmörku, einkum frá Bretlandi, ef skipum er ekki gert beinlínis að skyldu að annast slíka flutninga. Hefir nefndin því fallist á að bera fram frv. þetta, sem samið er af póststjórninni.

2. gr. frv. fer í þá átt, að fimmfalda megi viðurlög fyrir að neita póstflutningi, og að enn fremur sje póststjórninni heimilt að útiloka þá menn, er brotlegir gerast, frá póstsambandinu um ákveðinn tíma, og sömuleiðis að leggja slíka hegningu á þá menn, er sýna af sjer megn vanskil gagnvart póststjórninni, en hið síðarnefnda er þó því skilyrði bundið, að stjórnin samþykki. Nefndinni virtist, að þessi breyting hefði mikið til síns máls, og væntir hún þess, að frv. verði samþykt.