25.02.1920
Neðri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Háttv. frsm. (E. Þ.) hefir skýrt frá ástæðum sjávarútvegsnefnda fyrir að fella þetta ákvæði, sem hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) hefir talað um, úr lögunum. En jeg vil að eins bæta því við, að það er engan veginn gripið úr lausu lofti, að þetta atriði, í fyrsta lagi að því er misrjettið snertir, geti verið allvarhugavert, og í öðru lagi torveldi mjög landhelgisgæsluna. Hv. þm. Vestm. (K. E.), sem sæti á í sjávarútvegsnefnd Ed., og er sá lögreglustjóri, sem flesta landhelgisbrjóta hefir dæmt og allra manna kunnugastur er þessu, hefir skýrt nefndunum svo frá, að foringjar varðskipsins ha.fi altaf kvartað undan því, að þetta ákvæði væri mjög óheppilegt í lögum. Þeir telja gremju útlendinga svo megna yfir þessu misrjetti að þeir eru hreint hættir að beygja sig undir lögin að þessu leyti, og foringjar varðskipsins skirst við að draga þá fyrir lög og dóm fyrir þetta, þegar þeir hafa verið innan um íslenska botnvörpunga, sem samkv. undanþágunni hafa leyfi til að hafa hlerana utan borðs í landhelgi, þó að þeir sjeu ekki að veiðum. En þetta ákvæði gerir þeim auk þessa mun auðveldara að veiða í landhelgi, á þann hátt, að þeir eru ekki svipstund að draga upp vörpuna á grunnmiðum, þegar þeir þurfa ekki að taka hlerana inn á þilfarið, og þó að varðskipið sjái þá álengdar, þá getur þeim vel unnist tími til þessa áður en varðskipið er komið á vettvang, að fría sig á þennan hátt, þó að þeim hefði aftur á móti ekki unnist tími til að koma veiðarfærum í búlka, og þar með staðnir að brotinu. Þessu kvarta foringjar varðskipsins mjög undan, því þeir eru mjög varfærnir í því að taka skipin, ef þeir eru ekki alveg hárvissir um sekt þeirra.

Þótt segja megi, að okkur sje ekki vandfarið við útlendinga, sem sækja á fiskimiðin okkar og níðast á landhelginni, og sjálfsagt er að leggja þungar sektir við, er landhelgin er brotin, þá verður að girða fyrir alt misrjetti, því það er misrjettið, sem skapar óánægjuna, en ekki hitt, þótt sektirnar sjeu háar.

Og viðvíkjandi þessu misrjetti má enn fremur benda á það, hvernig aukaþingið veturinn 1916–17 leit á þetta mál. Þá kom fram frv. um það, að láta útlendinga, er síldveiði stunda hjer við land, borga nokkru hærra útflutningsgjald af síld en innlenda síldveiðamenn, þannig, að tollurinn væri að nafninu til jafnhár á öllum, en innlendum mönnum yrði hann endurgreiddur að nokkru.

Þessi aðferð var þá talin mjög varhugaverð og dauðadæmd, því frv. var felt.

Það verður því ekki með neinum rökum sagt, að það sje ekki að vel yfirlögðu ráði, að nefndin ræður til að nema þessa undanþágu í burtu.

Hjer er því vissulega um mjög mikilvægt atriði að ræða, sem allmikið veltur á, hvern árangur landhelgisgæslan ber. Og þó að segja megi, að íslenskum botnvörpueigendum sje nokkurt hagræði að þessari undanþágu. á þann hátt, að það sje vinnusparnaður, þá er það svo lítilvægt atriði, að þess gætir ekki hjá hinu.

Þótt þetta hafi verið af botnvörpueigendum notað sem yfirskotsástæða til að koma þessari undanþágu inn í lögin, þá hefir hitt verið aðalatriðið fyrir þeim, að auðvelda þeim með þessu að fiska í landhelgi.

Jeg vænti þess því, að hv. deild, að öllu athuguðu, þó að langur tími sje ekki til athugunar, verði með því að nema þetta ákvæði úr lögunum og með því gera oss miklu ljettara fyrir en nú er að verja landhelgina og tryggja betur, að vjer berum meira úr býtum fyrir þann kostnað og fyrirhöfn, sem það útheimtir, að gæta landhelginnar svo að í lagi sje.