27.02.1920
Efri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg get ekki varist því að láta í ljós, að mjer finst sjávarútvegsnefnd hafa farið nokkuð frekt í sakirnar, þegar hún hefir tífaldað sektarákvæðin frá því, sem áður var. Peningar hafa að vísu fallið í verði, en engum dettur í hug, að þeir hafi fallið svo, að hægt sje að rjettlæta tífalda hækkun.

Önnur grein segir: „Nú er botnvörpuskip í landhelgi, og skulu þá veiðarfæri öll vera í búlka innanborðs“. Með lögum þessum er numið það ákvæði úr lögum frá 30. júlí 1909, að íslenskir botnvörpungar geti fengið undanþágu frá að hafa veiðarfæri sín í búlka innanborðs. Þessi ívilnun var gerð fyrir íslenska botnvörpunga, af því að þeir áttu miklu oftar leið um landhelgissvæðið, bæði er þeir fóru á veiðar og af veiðum með afla sinn hingað til landsins. Þetta ákvæði kemur því miklu þyngra niður á íslenskum botnvörpungum. Alþingi 1909 taldi sjer skylt að veita íslenskum botnvörpungum þessa ívilnun. Veit jeg ekki til, að aðrar þjóðir hafi fundið nokkuð við það að athuga eða að komið hafi frá þeim kvartanir yfir því. Ef grein þessi yrði samþykt, myndi það leiða til þess, að hvíldartími skipverja styttist, en vinnutíminn lengdist, sem því næmi, að búlka veiðarfærunum. En besti hvíldartíminn er jafnan að lokinni veiði, á leið til lands. En ef þeir ættu þá að fara að búlka veiðarfærunum, mundu þeir ekki fá notið hvíldarinnar.

Jeg veit ekki til, að heimild þessi hafi verið misnotuð eða að íslenskir botnvörpungar hafi verið grunaðir um að veiða í landhelgi.

Jeg vil spyrja hv. nefnd, hvort hún hafi borið þetta mál undir stjórn útgerðarmannafjelagsins. Mjer finst, að þingið ætti að vara sig á því að setja fyrirmæli, sem íþyngja þeim atvinnugreinum, sem mest er íþyngt með sköttum og álögum.

Frsm. (K. E.) gat þess, að hækkun sektarákvæðisins stafaði af verðfalli peninga. En hjer er þess að gæta, að peningar hafa fallið misjafnt í verði í hinum einstöku löndum, og verður hækkunin því tilfinnanlegri fyrir þær þjóðir, sem peningar hafa fallið meira í verði hjá en oss. Frönsk og þýsk mynt hefir fallið enn þá meira í verði en krónan, og þó sektirnar væru ekki hækkaðar nú, yrðu þær þessum þjóðum mun tilfinnanlegri en þegar þær voru settar. Jeg get ekki sjeð, að það sje nauðsynlegt að knýja þetta áfram nú, og sje enga ástæðu fyrir þingið að reka þetta í gegnum deildina á einum degi. Mjer þykir það einnig óviðfeldið að gera þessa breytingu að útgerðarmönnunum fornspurðum. Jeg treysti mjer ekki til að fylgjast með þessu frv., eins og því er hroðað af á þinginu.