26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Úr því að háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) hefir horfið frá því ráði að koma fram með brtt. í þá átt að koma þessu umrædda ákvæði aftur inn í lögin, þá þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta.

En einungis af því, að hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) er altaf að bera það fram, að nefndin hafi bygt það, að nema þetta ákvæði úr lögunum, á lausafregnum, og að ekkert skjallegt liggi fyrir um nauðsyn þess, þá vil jeg endurtaka það, sem jeg hefi reyndar áður sagt um þetta efni, að nefndirnar bygðu þetta á ábyggilegum heimildum. Fyrst á ummælum og áliti hv. þm. Vestm. (K. E.), sem er allra manna kunnugastur þessum málum, þar sem hann er sá af lögreglustjórum landsins, sem haft hefir með höndum flest af málum þeim, sem risið hafa út af landhelgisbrotum, og dæmt hefir flesta landhelgisbrjótana. Á þennan hátt hefir honum þráfaldlega gefist færi á að kynnast þeirri óánægju, sem misrjetti þetta skapar hjá útlendingum; og umkvörtunum foringjanna á varðskipinu yfir því, hvað þetta ákvæði torveldi þeim landhelgisgæsluna.

Reynsla og eftirtekt sjómanna yfirleitt á þessu efni er alveg á sömu leið. Þeir hafa þegar fyrir löngu sjeð agnúana á þessu undanþáguákvæði, sem bæði hefir komið fram í ræðu og riti, og þráfaldlega á þingmálafundum hjer við Faxaflóa og víðar.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) sagði við 2. umr. þessa máls, að það hefði áður hjer á þingi komið fram tillögur um að fella þetta undanþáguákvæði niður, en ekki náð fram að ganga, þá vil jeg benda á, hver ástæða var fyrir því, að þetta komst ekki fram á þinginu 1914. Svo er mál með vexti, að jafnframt því, að farið var fram á að fella niður þessa undanþágu, átti einnig að hækka sektarákvæði laganna. En þá var stríðið að skella á, og voru menn því, af ótta við Englendinga, ragir við að hækka sektarákvæðin, og var það, að því er sjeð verður á umræðum um málið í Nd., ástæðan til þess, að ekki varð af neinum breytingum í það sinn.

Málið gekk þá óhindrað í gegnum Ed., en var felt í Nd., af þeim ástæðum, er jeg nú hefi talið.

Þessar breytingar, sem sjávarútvegsnefndir beggja deilda leggja til að gerðar sjeu á lögunum, eru ótvírætt bráðnauðsynlegar og á fylstu rökum bygðar, og hefir hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) gert hárrjett í því að hverfa frá því ráði, að reyna að þröngva þessari undanþáguheimild inn í lögin aftur.