20.02.1920
Efri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

28. mál, Kjarni og Hamrar undir lögsagnarumdæmi Akureyrar

Flm. (Einar Árnason):

Jeg hefi leyft mjer að leggja þetta litla frv. fram fyrir háttv. deild, samkvæmt eindreginni beiðni hlutaðeigandi hreppsnefnda. Um Kjarna er það að segja, að hann er eign Akureyrarbæjar og að öllu nytjaður þaðan. Ætti mál þetta því að vera auðsótt hvað hann snertir. Aftur eru Hamrar eign ríkissjóðs. En sje Kjarni lagður undir lögsagnarumdæmi bæjarins, verður land Hamra eins og fleygur í miðju bæjarlandinu. Þess vegna varð það að samkomulagi milli sveitar- og bæjarstjórnar, að báðar jarðirnar yrðu lagðar undir bæinn. Bæjarstjórn Akureyrar og hreppsnefnd Hrafnagilshrepps hafa gert með sjer samning, og eru öll aðalatriði hans tekin upp í frv. það, er hjer liggur fyrir hv. deild. Jeg verð að líta svo á, að samkv. sveitarstjórnarlögunum eigi sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu nokkurn íhlutunarrjett í málinu, og því hefi jeg sett 4. gr. inn í frv. Jeg geri sem sje ráð fyrir, að sýslunefndin geri kröfu til bæjarfjelagsins um einhverja fjárhæð í eitt skifti fyrir öll. En þar sem samningur þessi var gerður í síðastl. nóvembermánuði, hefir eigi unnist tími til, að sýslunefnd fjallaði um málið. Annars virðist mjer frv. þetta svo einfalt, að engin þörf sje á nefnd. Og geri því enga tillögu um það.