26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Magnús Kristjánsson:

Jeg álít, að hv. fjárveitinganefnd setji deildina í vanda með till. sínum, sem hvorki eru heilar nje hálfar og svo langt frá því að vera fullnægjandi, úr því að nefndin á annað borð fór að gera tilraun til að bæta úr misfellum þeim, sem óneitanlega eru á launakjörum ýmsra starfsmanna landsins. Jeg tel minni nauðsyn á þessu en mörgu öðru, sem þyrfti að fá framgengt. Jeg skal þá fyrst minnast á 2., 3. og 4. till., sem fjalla um ýmsar launabótakröfur einstakra manna. Með þessum tillögum er engin veruleg bót ráðin á ósamræmi því og misrjetti, sem svo áþreifanlega er fram komið síðan launalögin voru sett. Launalögin áttu að ráða bót á kjörum allra starfsmanna, en þetta hefir mistekist svo, að nú eru margir ver settir en áður. Þess vegna er athugavert að taka örfáa einstaka menn og bæta laun þeirra. Annaðhvort er að bæta nú laun allra, sem út undan hafa orðið, eða þá að taka launalögin til gagngerðrar endurskoðunar þegar á næsta þingi.

Eins og jeg hefi tekið fram, er hjer mikið vandamál á ferðinni; því vildi jeg beina því til hæstv. forseta, hvort það mætti ekki bíða til morguns eða laugardags. Hins vegar get jeg greitt atkv. með því að styrkja flóabáta, eins og hjer er farið fram á. Á síðasta þingi var gert ráð fyrir auknum og bættum strandferðum, en þetta hefir brugðist, enda skip verið lítt fáanleg. Það er því augljóst, að það væri óverjandi að fella nú niður styrkinn til flóabáta, þann sem verið hefir og alstaðar hefir komið að verulegu gagni. Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta að þessu sinni.