26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Forsætisráðherra (J. M):

Stjórnin hefir ekki bygt á ráðstöfunum til að halda niðri verðinu löngu eftir að stríðinu var lokið. En það er afsakanlegt, þótt stjórnin bygði á því, að verð á vörum fjelli heldur en hækkaði.

Jeg held, að það hafi verið flestra fjármálamanna skoðun, að þá og þá kæmi verðfallið. En verðfallið er ekki komið enn þá, heldur hefir þvert á móti alt stigið dag frá degi. Sannleikurinn í þessu mun vera sá, að engum menskum manni er mögulegt að segja, hve nær verðfallið kemur. En fjármálamenn a Norðurlöndum, sem jeg hefi átt tal við nýlega, voru allir sammála um það, að verðfallið hlyti að koma á þessu eða næsta ári. Og vel má vera, að það komi áður en nokkurn varir. Þess vegna er ekki rjett að ásaka stjórnina fyrir þetta.