26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Bjarni Jónsson:

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) klappaði steininn viðvíkjandi sendiherranum. Hann hjelt því fram, að stjórnin hefði haft þingið að ginningarfífli í fyrra, þegar hún áætlaði ekki hærra en 12 þús. kr. til sendiherrans. Stjórnin bygði á því, hvað kostaði að lifa í Kaupmannahöfn þá, og það er ekki gott að ætlast til, að hún bygði á öðru. Jeg hygg, að hún hafi hreinsað sig fyllilega, en nú á háttv. þm. (P. O.) eftir að hreinsa sjálfan sig í þessu máli, en ekki get jeg búist við, að honum gangi sá þvottur eins vel og stjórninni.

Hv. þm. (P. O.) talaði í fyrra um skrifstofu, sem kostaði 12 þús. kr. Jeg áætlaði, að sú skrifstofa kostaði þá milli 22–24 þús. kr., og var það ekki reikningur minn, heldur Jóns Sveinbjörnssonar, og hafði hann sent hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þá áætlun. Mismunurinn verður þá um 4 þús. kr., og er það sú upphæð, sem hv. þm. (P. O.) tímir ekki að gjalda fyrir heiður landsins. Þeir menn, sem halda, að skrifstofan kosti að eins 12 þús., þeir gera ráð fyrir gefnu húsnæði og lægra kaupi til starfsmanna en menn fást fyrir. Það eru því þeir, sem gera tilraun til að ginna þingið.

Hv. þm. (P. O.) ætlaði að sýna fyndni sína þegar hann talaði um vegabrjef frá Ameríku, en honum tókst að eins að opinbera grunnhygni sína. Vjer höfum sendiherra í öllum öðrum löndum en Danmörku, því að danskir sendiherrar eru um leið sendiherrar Íslands samkvæmt umboði, og þeir mundu skrifa á vegabrjef. Jeg vænti þess, að jeg þurfi ekki að tyggja þetta í hann eins og lamb, sem ekki kann átið. Jeg þykist ekki þurfa að ræða þetta meira. Jeg veit, að í hv. þm. Borgf. (P. O.) er þrái frá fyrra þingi. Þá hefir það ef til vill verið vantandi skilningur, sem rjeð framkomu hans, en nú er því varla til að dreifa, og nenni jeg ekki að eltast við kappgirni hv. þm. (P. O.).