26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Eiríkur Einarsson:

Jeg ætla ekki að blanda mjer í þær umr., sem hjer hafa orðið, en vildi gera athugasemd út af till. á þgskj. 120, frá háttv. þm. N.-Ísf. (S. St). Jeg ætla ekki að andmæla þeirri till., heldur að eins benda á, að ýmsar styrkbeiðslur sama eðlis hafa legið fyrir samgöngumálanefnd, og hefir hún ekki viljað taka neina afstöðu til þeirra. Austfirðingar fóru fram á styrk til flóabátaferða þar, og við þm. Árn. fórum fram á styrk til ferða milli Reykjavíkur og Eyrarbakka og Stokkseyrar og milli þeirra og Vestmannaeyja. Jeg ætla ekki að ræða þetta frekar nú, heldur benda á, að eins og þessi beiðni, á þgskj. 120, er komin fram, eins munu hinar fylgja á eftir, og vona jeg, að þær megi vera þessari till. samflota. Jeg vænti þess, að þegar við berum fram till. okkar um styrk til bátaferða þar eystra, þá verði henni eins vel tekið eins og jeg vona að hv. deild taki till. á þgskj. 120.