26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Jón Sigurðsson:

Herra forseti! Jeg get byrjað með því að taka það fram, að jeg er sammála hv. þm. Borgf.(P. O.) um sendiherrann. Ræður hv. þm. Dala. (B. J.) hafa ekki getað sannfært mig um nauðsyn hans, heldur hið gagnstæða. Jeg tel því vel unandi við þá skrifstofu í Kaupmannahöfn, sem nú er. Jeg mun því greiða atkvæði á móti þeim lið í till. nefndarinnar

Um 4. lið till. vildi jeg fara nokkrum orðum.

Hv. frsm. (M. P.) drap á það, að ef sá liður yrði feldur, þá yrði það óumflýjanlegt, að Búnaðarfjelagið yrði að draga úr framkvæmdum sínum, til að geta greitt starfsmönnum sínum sæmilegt kaup. Þetta yrði mjög bagalegt, því Búnaðarfjelagið hefir nú á stefnuskrá sinni margt það, sem getur haft stórfelda þýðingu fyrir framtíð landbúnaðarins. Jeg get ekki stilt mig um að minnast á þrent, sem fjelagið leggur nú sjerstaka áherslu á. Það hefir ákveðið að verja miklu af fje sínu til verfærakaupa. Það er bráðnauðsynlegt og ætti að vera gert fyrir löngu. Það ætlar ekki að eins að útvega ný verkfæri, heldur að reyna þau og fá þeim breytt eftir því, sem búnaðarhættir okkar krefjast. Síðan á að halda sýningu á verkfærunum, til þess að almenningur kynnist þeim og læri að meta rjett gildi þeirra. Einnig á að örfa efnilega menn til að hugsa upp ný verkfæri og vinnuaðferðir, með því að kaupa af þeim uppfundningarnar eða veita þeim verðlaun. Ef ekki verður unnið að þessu af alefli, og það verður því að eins, að Búnaðarfjelagið geti varið því fje til þessa, sem það hefir þegar ákveðið, þá er ekki annað sjáanlegt en að búnaður í stærri stíl leggist smám saman niður. Höfuðbólin bútast niður í einyrkjakot, því þau verður ekki hægt að reka vegna þess, hve mannsaflið er orðið dýrt.

Þá hefir fjelagið hugsað sjer að undirbúa og framkvæma vatnsveitingar. Þingið hefir sýnt lofsverðan áhuga í þessu efni og veitt styrki til fyrirtækjanna, en öll þau útlát eru meiningarlaus, ef ekki er hægt að fá hæfa menn til að undirbúa vatnsveitingarnar og sjá um framkvæmdir þeirra. Það er áreiðanlegt, að vatnsveitingar eru þær jarðabætur, sem fljótast borga sig, enda hafa augu bænda opnast fyrir þýðingu þeirra. Sem dæmi áhugans, sem þegar er orðinn um þetta atriði, þá hefir mjer verið tjáð, að 12 umsóknir hafi fjelaginu borist um mælingu á stærri áveitum. Það er því einsýnt, að fjelagið má ekki draga saman seglin á þessu sviði.

Loks kem jeg að búfjárræktinni, og hefir fjelagið nú ákveðið að breyta til og skipa hæfa ráðunauta á öllum sviðum búnaðarins. Þeir, sem fylgjast með erlendum búnaðarframförum, vita, hvert kapp er lagt á kynbætur, og erum við þar eftirbátar annara. Nú er fóðurframleiðslan orðin svo dýr, að það skiftir ekki litlu máli, að skepnurnar gefi sem mest af sjer. Það, sem vinst á í þessu efni, er að mestu hreinn gróði fyrir landsmenn.

Ef fjelagið á nú að taka fje úr eigin sjóði til að bæta laun starfsmanna sinna, þá hlýtur það að draga mikið úr þessum framkvæmdum, o. m. fl. Þetta mál er þess vert, að það sje athugað. Það er mál, sem snertir ekki einungis landbúnaðinn, heldur alla íslensku þjóðina. Landbúnaðurinn er nú á vegamótum, og skiftir ekki litlu, að þing og stjórn hjálpi til að ryðja þann veginn, sem liggur að meiri og ódýrari framleiðslu og meiri og almennari velmegun þjóðarinnar. Jeg vænti þess því fastlega, að hv. deildarmenn greiði þessum lið á till. nefndarinnar atkv. sitt.