27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vildi segja nokkur orð í sambandi við viðaukatill. á þgskj. 133. Vegna þess, að jeg er dálítið riðinn við þann skilning barnakennaralaganna, sem hjer um ræðir, vil jeg geta þess, að þótt brjefið frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.,) hefði legið fyrir frá byrjun. mundi skilningur minn á þessu lagaákvæði hafa orðið hinn sami, enda eru meira verð í þessu efni orð laganna en ummæli einstakra þingmanna. Og ekki mundu kennarar hafa grætt á því, að farið hefði verið eftir meiningu þessa þm. á þessu ári, því að tilætlun hans var, að þeir fengju enga aldursbót þ. á. Þar af sjest, að stjórnin hefir gengið lengra en hann hefir ætlast til. Það er heldur engin ástæða að fara eftir skilningi flutningsmanna á þessu atriði, heldur að eins eftir orðalagi laganna. Það er og harla kynleg aðferð að ætla sjer að breyta lögum með þingsál. Mjer finst enn fremur, að kennarar hjer við barnaskólann fái sæmilegt kaup. Þeir fá 3–7 þús. kr. fyrir sjö mánaða starf. Og er jeg sannfærður um, að þeir sumir hafa hærri laun, reiknað eftir tímavinnu, en hæst launuðu embættismenn vorir.

Þjónustutímann hefir stjórnarráðið talið frá þeim tíma, sem kennarinn var fyrst ráðinn með föstu árskaupi, en nú vilja hv. flm. þessarar tillögu láta telja starfsaldur þeirra frá ráðningu, þótt þeir hafi ekki kent nema 2 tíma á viku. Þetta fer beinlínis í bág við anda kennaralaganna, því að þau gera ráð fyrir 30 stunda kenslu á viku. Enginn sanngirni mælir með því, að þeim sem að eins kenna 2 stundir á viku, sje gert jafnhátt undir höfði og hinum, er kenna 30 stundir. Og það er greinilega gert ráð fyrir því í lögunum, að hlutaðeigandi kennarar kenni svo marga tíma, til þess að geta orðið fullra launa aðnjótandi. Og þetta er mjög eðlilegt. En í till. eru að eins heimtuð rjettindi, en minna hugsað um skyldurnar.

Mjer sýnist b-liðurinn líka að marki varhugaverður. Þar eru taldir í einum flokki farkennarar, eftirlitskennarar og barnaskólakennarar í og utan kaupstaða og kauptúna. Þetta eru þó töluvert mismunandi störf sem kennaralögin gefa að flestu eða öllu leyti mismunandi reglur um. En eftir till. á að hita ganga eitt yfir alla að því er aldursbótina snertir, auk þess sem gert er ráð fyrir, að kennarar fái hana frá ráðningardegi, jafnvel þótt þeir kenni ekki neitt. En hvorttveggja þetta er óhafandi og má ekki verða samþykt, enda færi það alveg í bága við launalög embættismanna, en eðlilegt að sama gildi í þessu efni. Jeg neita því ekki, að það þurfi að lagfæra lögin eitthvað, en ekki á þessu, heldur næsta þingi. Og jeg veit, að fræðslumálastjóri hefir hug á að bæta þau eitthvað.

Hv. flm. (Sv. B.) sagði, að nálega enginn kennari kæmist undir aldursbót. Þetta er ekki rjett. Þeir eru margir, t. d. í Reykjavík, og margir úti um land. En hinir eru þó nokkuð margir, sem ekki eru ráðnir með föstu árskaupi og falla því ekki hjer undir. En laun þeirra eru svo ríf, að það er ekki sanngirni gagnvart öðrum starfsmönnum ríkisins að bæta við þau. Því er rjett að láta þetta bíða, en hugsa heldur til að endurskoða lögin á næsta þingi.

Jeg skal taka það fram, að ríkið borgar um 100 þús. kr. til barnaskólans í Reykjavík. Þetta er svo mikil fjárhæð, að vafalaust er rangt að hækka hana.