27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Þorsteinn Jónsson:

Það eru fáein orð um viðaukatill. á þgskj. 133. Hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) hefir tekið fram þau rök, sem liggja fyrir a-lið hennar, og hefi jeg þar engu við að bæta. Aftur á móti mintist hann ekkert á b-lið till.

Sem vitanlegt er, getur þingsál.till. ekki breytt lögum, enda datt oss flm. það ekki í hug, en vildum að eins slá föstum ákveðnum skilningi á þessum atriðum í launalögum kennara, sem þessi viðaukatill. fjallar um.

Í 12. gr. kennaralaunalaganna er svo ákveðið, að launaviðbót eftir þjónustualdri verði talin frá þeim tíma, er þeir urðu fastir kennarar. Með b-lið till. á þgskj. 133 er þeim skilningi slegið föstum, að þótt kennari flytjist úr einum launaflokki til annars, það er að segja að kennari utan kaupstaðar flytji í kaupstað eða úr kaupstað í skóla utan kaupstaða, þá sje ekki litið svo á, að hann skifti um starf, heldur sje þjónustualdur hans reiknaður frá því er hann varð fyrst fastur kennari. Virðist okkur það samkvæmt lögunum, en því flytjum við þessa till., að við höfum komist að því, að stjórnin muni ekki líta sömu augum á þetta atriði laganna.

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) taldi, að um þrennskonar stöður væri að ræða, þegar talað væri um barnakennara, en jeg get ekki sjeð það; hjer er aðeins um launaflokka að ræða, launin sniðin eftir því, hve dýrt myndi fyrir kennarann að lifa, eftir því hvar hann væri kennari.

Launanefndin í fyrra taldi t. d. rjett, að kennari í kaupstaðarskóla væri hærra launaður en kennari í sveit eða smákaupstað. Liggur þar hið sama til grundvallar sem fyrir flokkun læknaembætta.

Þá eru nokkur atriði, sem rjett væri að taka fram, viðvíkandi því, sem hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) sagði um þetta mál. Skal jeg þó sleppa því, nema einu einasta atriði, þar sem hann skildi okkur öðruvísi en við ætluðumst til. Hann leit svo á, að við vildum telja það fasta kennara, sem kendu að eins 2 tíma á dag, en í lögunum er talað um, að kennarar þurfi að kenna 30 stundir á viku og kenna minst 4 vikur á ári. Fer till. að engu leyti í bág við það, enda var ekki til þess ætlast af okkur flm.