28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Halldór Steinsson:

Jeg skal lýsa yfir því, að jeg er óánægður með það, að tillögur, sem leiða til svo mikilla fjárútláta, skuli útkljáðar á stuttu aukaþingi eins og þessu, fjárútlát, sem, ef vel er aðgætt, alls ekki eru bráðnauðsynleg. Þau virðast nema, að fráskildum 7. lið, nálægt 150 þús. kr., en alls á 3. hundrað þús. kr.

Um einstaka liði skal jeg geta þess, að þótt þeir yfirleitt mættu bíða, eru þeir þó mismunandi nauðsynlegir.

Jeg er ekki samþykkur 1. lið, af því að á síðasta þingi var jeg andvígur því, að stofna sendiherraembætti í Kaupmannahöfn. Jeg hefi altaf litið svo á að þetta embætti væri ekki svo bráðnauðsynlegt, að ekki væri hægt að komast af án þess, og því síður að hækkuð væri laun hans. Mjer skildist einnig á hæstv. forsætisráðh. (J. M ) að honum eða stjórninni væri þetta ekki kappsmál.

Um 2. lið er nokkuð öðru máli að gegna. Jeg verð að telja þetta nauðsynlegasta liðinn á till. Ef vjer eigum nokkursstaðar að hafa erindreka, þá eigum vjer að hafa þá þar, sem vjer kaupum og seljum vörur, ekki síst suður í löndum, þar sem fiskimarkaður vor er aðallega. Mjer dylst það ekki, að þessi fjárveiting muni hafa mikla paktiska þýðingu, og þess vegna er jeg með henni.

3. liður er svo smár, að jeg legg ekkert kapp á hann.

Um 4. lið er sama að segja, að jeg legst ekki beint á móti honum. Annars fekk Búnaðarfjelagið svo ríflega uppbót á síðasta þingi, að svo virðist, sem ekki hefði þurft að koma fram beiðni um nýja styrkveitingu svo fljótt.

5. liður, styrkur til vjelbátaferða um Ísafjarðardjúp. Það verður varla komist hjá því að samþykja þann lið, af því að hjer stendur svo sjerstaklega á. Hjer er að eins 1 bátur og hefir hann póstflutning, en ef styrkurinn væri ekki veittur, myndi póstflutningurinn verða að leggjast niður.

6. liður fer fram á svo litla fjárhæð, að jeg get ekki amast við honum.

Um 7. lið verð jeg að vera alveg á sama máli og háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) og hæstv. fjármálaráðh. (M. G.) Jeg get ekki verið með því, að einni stjett sje kipt út úr launalögunum og kjör hennar bætt. Hitt er nær, að laga öll lögin nú á næstunni.

Þá kem jeg að síðasta liðnum, sem mjer er skyldast að minnast á sem formanns í samgöngumálanefndinni hjer. Fyrir nefndinni lágu ýmsar málaleitanir, um styrk til báts milli Reykjavíkur og Eyrarbakka, til Lónsbáts, Austfjarðabáts, Eyjafjarðarbáts og Ísafjarðarbáts. Samtals námu styrkbeiðnirnar 72 þús. kr. Samgöngumálanefndir beggja deilda hafa athugað þessi mál á nokkrum fundum sameiginlega og komist að þeirri niðurstöðu, að sanngirni mælti með flestum beiðnunum, en þó misjafnlega mikil. En það varð þó ofan á að taka þær ekki til greina, bæði af því, að ekki væri rjett á aukaþingi að veita stórar fjárhæðir, enda myndu og þá hafa komið fram samskonar beiðnir frá mörgum fleiri stöðum. Það var samþykt í samvinnunefndinni með 7:5 atkv. að taka beiðnirnar ekki til greina, aðrar en styrkinn til Ísafjarðarbátsins, sem jeg hefi vikið að áður.

Þegar þessar styrkbeiðnir komu fram í hv. Nd., varð það úr að vísa þeim á ný til samgöngumálanefnda. Varð það loks ofan á í nefndunum með litlum meiri hluta að heimila stjórninni 80 þús. kr. viðbótarstyrk til strandferða.

Jeg vil vera á móti þessum lið, ekki af því, að hjer sje um þarfleysu að ræða, því full þörf er á auknum samgöngum, heldur af því, að jeg efast um, að stjórnin úthluti þessum styrk þar sem þörfin er brýnust, en bindi sig eingöngu við þær umsóknir, sem liggja fyrir. Gætu á þennan hátt t. d. Breiðafjörður og Vestfirðir orðið án aukins styrks, en þar er, sem kunnugt er, einna brýnust þörf á að bæta samgöngur á sjó, þótt fulltrúar þeirra hjeraða hafi kynokað sjer við á þessu aukaþingi að fara fram á aukinn styrk til samgangna. Jeg mun því greiða atkvæði mitt móti liðnum í þessu formi.