26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

50. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg þarf nú í rauninni ekki að fjölyrða um það, hver nauðsyn er á því, að landhelgin okkar sje varin fyrir botnvörpuveiðum.

Reynsla sú, sem fengin er í þessu efni, hefir þegar fyrir löngu sýnt það ljóslega, hver áhrif þessi veiðiaðferð hefir á fiskigöngurnar.

Berlegast hefir þetta þó komið í ljós síðustu árin, meðan stríðið girti að mestu leyti fyrir aðsókn útlendra botnvörpunga á miðin og botnvörpungaútgerðin minkaði í landinu sjálfu.

Á þessum árum, einkum þó þeim síðari, hafa fiskigöngur hagað sjer mjög svipað því, sem áður var, meðan botnvörpuveiðarnar voru ekki komnar til sögunnar. Fiskurinn hefir gengið hindrunarlaust inn á firði og flóa, og bátfiski á grunnmiðum, sem víða var með öllu horfið, hefir verið ærið þessi árin. Það er engum vafa undirorpið, að þessi mikli afli á opnu bátana, eins og örðugt hefir verið með stærri útgerð, á ekki minstan þátt í því, hve landið er vel statt fjárhagslega, þrátt fyrir alt, sem á hefir dunið.

Það er mikið mein þessu landi, hve landhelgin er takmörkuð. Þrír mílufjórðungar er ekki stórt svæði. Og sjerstaklega er þetta bagalegt þess vegna, að utan landhelginnar liggja sumstaðar aðalfiskimiðin, sem sótt er á af opnum bátum, eins og á sjer t. d. stað hjer við innanverðan Faxaflóa.

En mikils er það þó um vert, að landhelgin, þó lítil sje, sje vernduð fyrir botuvörpuveiðum. Það þarf mikið til, svo að vel sje í þessu efni; svæðið er stórt, hringinn í kringum landið, og svo það, sem alkunnugt er, að botnvörpungaskipstjórar kosta, margir hverjir, mjög kapps um það og neyta hvers færis, sem gefst, til að veiða í landhelgi, og á þetta bæði við innlenda skipstjóra og þá, sem hingað sækja annarsstaðar að. Og þeim mun meiri hætta er hjer á ferðinni, sem þeim fjölgar nú óðfluga, skipunum, sem á miðin sækja, bæði innlendum og útlendum.

Landhelgisgæsla sú, sem við höfum átt við að búa, hefir verið allsendis ónóg, og síðustu árin nær engin; hún hefir eðlilega verið ónóg af því, að varsla eins skips nær skamt, og svo er það alkunna, að gæslan hefir verið mjög misjafnlega rækt.

Hjer skortir því tvent, aukna gæslu og betur rækta.

Síðasta þing sýndi það í verkinu, hversu mikil lífsnauðsyn það er þessari þjóð, að hjer verði bót á ráðin.

Á síðasta þingi voru, svo sem kunnugt er, samþykt einróma lög um það að heimila stjórninni að kaupa eða láta byggja eins fljótt og hægt væri eitt eða fleiri skip til landhelgisgæslu, og henni heimilað að taka lán til þess. En ef ekki fengist hentugt skip til kaups, var stjórninni heimilað að taka skip á leigu meðan verið væri að smíða nýtt skip eða sæta færis með kaup á skipi.

Eins og sjá má af þessum lögum og umræðurnar um þetta mál á síðasta þingi bera með sjer, var lögð mjög mikil og sterk áhersla á það, að stjórnin ljeti ekki undir höfuð leggjast að hrinda af stað framkvæmdum í þessu máli. Það má líka held jeg, með fullum sanni segja að það sje naumast nokkurt mál nú, sem þjóðin fylgir með meiri áhuga og eftirtekt heldur en framkvæmd þessa máls.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir nú skýrt frá því, fyrst í sameinuðu þingi og síðan nánar hjá sjávarútvegsnefnd Nd., hvað ráðuneytið hefir gert í þessu máli. Hann hefir skýrt svo frá, að hann hafi að vísu fengið tilboð um skip, sem viðkomendur hefðu haldið að duga myndu til landhelgisgæslu hjer, en þeir annmarkar hefðu þó á þessu verið, að naumast hefðu þessi skip fengist svo snemma, að lið hefði að verið á vetrarvertíðinni nú. Auk þess skorti, að svo stöddu, annan nauðsynlegan undirbúning viðvíkjandi því, að Íslendingar tækju að sjer stjórn slíkra skipa.

En aftur á móti hefir hæstv. forsætisráðh. (J. M.) skýrt frá því, að danska stjórnin hafi boðist til þess að senda hingað annað skip með Fálkanum til landhelgisgæslu, og að jafnframt mætti fullkomlega vænta þess, að danska stjórnin legði mikla áherslu á það við forustumenn þessara skipa að sýna árvekni og dugnað í þessu starfi sínu. En sá hængur er nú samt á þessu, að enn sem komið er er ekki full trygging fyrir því, að skipin geti verið hjer alt árið, að minsta kosti annað þeirra.

En þrátt fyrir þetta verður nefndin, að öllum málavöxtum athuguðum, að telja þessa úrbót mjög mikilsverða nú að þessu sinni, og þó einkum ef stjórnin gæti fengið þann tíma lengdan, sem skipunum er ætlað að vera hjer við land, eða úr því bætt á einhvern annan hátt, sem jafngilti því, að hjer væru að minsta kosti tvö skip að staðaldri við landhelgisgæslu þetta ár. Þetta er hið allra minsta, sem hægt er að hugsa sjer, svo að vænta megi nokkurs verulegs gagns af. Og því að eins er þó hægt að vænta þess, að skipin hagi gæslunni þannig, að þau sjeu þar á verði, sem aðstaðan til fiskiveiðanna útheimtir mesta gæslu á hverjum tíma ársins, en það skiftist nokkuð á um það. Og þó að hjer við Suðurland, eins og t. d. hjer við Faxaflóa, sje brýn þörf fyrir landhelgisgæslu alt árið, þá er það aftur á móti einkum og sjer í lagi þegar líður á vorið og að sumrinu til og fram eftir haustinu, sem mest er þörfin á landhelgisgæslu við Vestur-, Norður- og Austurland. Og enn fremur er það nauðsynlegt, að skipin sjeu altaf á vettvangi þegar kleift er og liggi ekki að nauðsynjalausu á höfnum inni. Að þessu lýtur fyrri liður tillögunnar.

Um síðari lið till. er það að segja, að meðal annars í undirbúningi þessa máls er það nauðsynlegt, að innlendir menn afli sjer sem fyrst þeirrar mentunar og æfingar, sem það útheimtir að stjórna slíku varðskipi. Og hafði nefndin þá hugsað sjer, að til mála gæti, það komið t. d., að nokkrir innlendir menn fengju, að tilhlutun stjórnarinnar, að vera á varðskipum þeim, sem fyrirhugað er að hafi gæsluna á hendi á þessu ári.

Nefndin vildi sem sje tryggja það með þingsályktunartillögu þessari, að nauðsynlegar framkvæmdir til undirbúnings þessa máls þyrftu ekki að stranda á því, að stjórnin hefði ekki fulla heimild til þess að verja nokkru fje til þess að hrinda málinu áfram. Það má nú að vísu segja, að stjórnin hafi þessa heimild í lögum frá síðasta þingi, og það er að vísu rjett. En hjer má þar um segja, að góð vísa sje ekki of oft kveðin.

En jafnframt þessu á þingsál. till. þessi — og ekki hvað síst — að vera til þess að leggja áherslu, eindregna áherslu, á það við stjórnina að leita fyrir sjer um kaup á skipi eða skipum, sem hentug eru til landhelgisgæslu, og undirbúa það að öðru leyti, að við getum sem fyrst á eigin spýtur tekið þátt í landhelgisgæslunni og aukið hana, og svo vitanlega tekið hana að öllu leyti í okkar eigin hendur með tímanum.

Jeg vil svo að endingu minnast á annað mál, sem er þessu náskylt og ekki er minna um vert, sem sje rýmkun landhelginnar. Jeg vil brýna það fyrir stjórninni, fyrir nefndarinnar hönd, að halda því máli fast fram, því að takmarkið, sem hjer verður að keppa að, er það, að rýmka landhelgina og auka landhelgisgæsluna. A þessu veltur hvorki meira nje minna en fjárhagslegt sjálfstæði þessarar þjóðar.