27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

60. mál, vöruvöndun

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi engu að svara hv. þm. Dala. (B.J.). Jeg fellst alveg á hans mál um það, að nauðsynlegt sje að hafa eftirlit með, að umbúðir á vöru, sem er flutt út hjeðan, sjeu í góðu lagi.

En jeg vildi að eins svara hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) nokkrum orðum, út af því, að hann áleit þýðingarmikið að lögbjóða endurmat á allri síld. Þetta þýðir sama og að banna allan útflutning fyr en að minsta kosti einum mánuði eftir að síldin er veidd. Jeg álít, að það sje mjög varasöm leið, sem þar væri tekin til að vernda atvinnuveginn. Jeg hefi bent á það áður, hversu mikla þýðingu þetta getur haft fyrir söluna á síldinni, en vil að eins bæta því við, að einungis sú síldin, sem var flutt út strax síðasta ár, seldist með góðu verði; hin ekki. Sjá menn því, að hjer er mjótt mundangshófið.