27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

60. mál, vöruvöndun

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil ekki vera á móti þessu máli í sjálfu sjer, en álít, að slík þingsályktun muni hafa nauðalítil áhrif. Mundi þetta þá helst eiga við um tunnusmíði, en hjer á landi er varla um slíkan iðnað að tala, nema þá tunnur undir kjöt.

Jeg á bágt með að trúa því, að kjöt hafi verið flutt út í lýsistunnum, og það meðal annars af þeirri ástæðu, að lýsistunnur eru miklu stærri en kjöttunnur.

Hvað viðvíkur breytingu á síldarmatslögunum, sje jeg ekki, að um annað gæti verið að ræða en lögbjóða endurmat á allri síld, en það álít jeg nú ekki eins þýðingarmikið og sumir hv. þm. hafa viljað halda fram. Sú síld, er veiðist fyrst og kæmi til mála að yrði flutt út áður en hún væri endurmetin, er venjulega átulítil og því lítil hætta á, að hún skemmist, og svo er síldin þar að auki venjulega metin upp, er hún kemur út.

Jeg vil líka drepa á það, sem hv. þm. Ak. (M. K.) mintist á, að sú síld, sem send er út óendurskoðuð, ber ekki sama stimpil sem endurskoðuð síld, og getur því kaupendum ekki blandast hugur um. hverskonar síld þeir kaupa. Útgerðarmenn verða oft að selja síld sína til að losa til hjá sjer og til að afla sjer fjár til að geta haldið áfram rekstri sínum, og veit jeg ekki til, að slíkt hafi nokkurn tíma orðið vöruvöndun að baga.

Hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) talaði um síld, sem hefði verið orðin óhæf þegar á markaðinn kom, og getur það verið af ýmsum ástæðum. Jeg veit um mann, sem seldi ágætissíld frá Ísafirði; hún var úr nót og endurmetin. Skipið, sem hún var send með, hrepti vond veður, og það var að eins hálfhlaðið, svo að síldin valt fram og aftur um lestina. Þegar á markaðinn kom, var hún tekin að þrána, og pækillinn var runninn af henni. Annars er oft ekki mikið mark takandi á umkvörtunum kaupenda. Varan fellur oft í verði, og vilja þeir þá smeygja sjer undankaupunum og reyna að finna sem flesta galla á vörunni. Það er ekki síldin ein, sem þessu er háð; fiskurinn hefir orðið að þola hið sama. Verkun hans er orðin ágæt, síðan fiskimatslögin nýju komu, en þó hafa stöðugt komið umkvartanir, og er ómögulegt að fyrirbyggja þær, síst þegar þær eru ekki á rökum bygðar, en vitanlega er skylda okkar að vanda svo vörurnar, sem við getum.

Um tunnurnar er það að segja, að þær eru háðar eftirliti matsmanna, og verður að treysta því, að þeir láti ekki salta í aðrar tunnur en þær, sem forsvaranlegar eru. En þó má geta þess, að oft er erfitt að ákveða, hverjar tunnur eru hæfar og hverjar ekki. Það má taka t. d. eikartunnur.

Þær geta lekið pækli í 1 eða 2 fyrstu skiftin, en þegar þær þjettast, þá verða þær einhverjar bestu tunnur, sem hægt er að fá.

Jeg ætla ekki að fara um till. fleiri orðum. Jeg vil ekki andmæla henni, þó að jeg sjái það í hendi mjer, að hún muni hafa litla þýðingu.