27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

60. mál, vöruvöndun

Ólafur Proppé:

Herra forseti! Jeg get verið stuttorður. Það, sem aðallega vakti fyrir mjer, þegar jeg gerðist meðflutningsmaður þessarar till. um vöruvöndun, var sjerstaklega eftirlitið með hverskonar umbúðum, og þá ekki síst tunnusmíði. Eins og kunnugt er, þá er lögboðið mat á fiski, síld, kjöti, ull og fleiru, en jeg held, að frekari áherslu þurfi að leggja á síldarmatið, og þá sjerstaklega umbúðir síldarinnar, en gert hefir verið. Tunnusmíðin hefir lítið verið athuguð, en mjer kæmi það ekki á óvart, þó að þau vandræði, sem nú eru á síldarsölunni yfirleitt. stafi að meira eða minna leyti af óvönduðum frágangi á tunnum og tunnusmíði

Hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) gat þess, að hjer væri örlítið smíðað af tunnum, og að matið mundi þess vegna ekki koma að tilætluðum notum, en matið á að minni hyggju að ná yfir hvorttveggja, hvort heldur eru smíðaðar hjer á landi eða innfluttar heilar eða óuppsettar.

Jeg ætlast ekki til, að lög verði sett um þetta efni, heldur reglugerð, sem verði í þessu tilliti betri, ákveðnari og skýrari en síldarmatslögin.