27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

60. mál, vöruvöndun

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg get ekki komist hjá því að furða mig á, að stuðningsmenn stjórnarinnar lýsa því yfir, að til lítils sje að skora á hana í þessu máli. Jeg styð ekki stjórnina, en þó treysti jeg henni til að gera það, sem gera þarf, þegar ekki er um vandasamara verk en þetta að ræða. Annars er þessi framkoma stjórnarsinna einkenni þess, hvernig stjórnmálum Íslands er nú varið.

Það hefir verið um það rætt, að fátt sje hjer smíðað af tunnum. Jeg læt það vera, hvað lítið það er. Þessi eini maður, sem hefir snúið sjer til þingsins, hefir smíðað 18 þús. tunnur, og líklega er hann ekki einn um tunnusmíði, og er von á góðu framhaldi.

Hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) efaðist um, að lýsistunnur hefðu verið notaðar undir kjöt. Jeg hefi að vísu ekki sjeð það sjálfur, en maðurinn, sem jeg gat um áðan, segir frá því í brjefi sínu til þingsins, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp tvo kafla úr brjefi hans. Segir hann á öðrum staðnum dæmi af því, að síld hafi verið flutt út í óhreinum tunnum, og á hinum frá slíkri meðferð á kjötinu, er jeg hefi nú vakið athygli á. Fyrri kaflinn hljóðar svo:

„ Það er sorglegt að hugsa sjer, eins og átti sjer stað síðastliðið vor, að hjer sunnanlands er veidd síld, sem er svo söltuð í óhreinar tunnur. Og upp á útflutningspappírana skrifar svo síldarmatsmaðurinn. Varan er svo send út á markaðinn, og afleiðingarnar verða þær, eins og eðlilegt er, að varan vekur andstygð allra, og er að lokum seld fyrir sama sem ekkert, sem skepnufóður. Þetta er glæpsamlegt athæfi gagnvart íslenskum afurðum, og hver veit nema hjer frá stafi erfiðleikarnir við að selja síldina nú undanfarið — að minsta kosti meðfram “

En um kjötið segir hann:

„ Mjer er líka kunnugt um, að í fyrra haust voru fengnar lýsistunnur frá Nathan & Olsen og sendar vestur í Stykkishólm og þar saltað í tunnurnar kjöt. Þetta er svo mikið skeytingarleysi gagnvart íslenskum afurðum, að gengur glæpi næst og veldur landinu stórtjóni, er getur skift miljónum króna, og þetta láta eftirlitsmennirnir við gangast ....“ Jeg veit, að þetta er sannorður maður, og mun hann eflaust geta fært sönnur á mál sitt, ef þess er óskað.