26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

Stjórnarskipti

forsætisráðherra (J. M.):

Í gær þóknaðist hans hátign konunginum að leysa atvinnumála- og samgöngumálaráðherra Sigurð Jónsson og fjármálaráðherra Sigurð Eggerz frá störfum, en skipa alþingismann Pjetur umboðsmann Jónsson atvinnumála- og samgöngumálaráðherra, en alþingismann og skrifstofustjóra Magnús Guðmundsson fjármálaráðherra. Mig hefir hans hátign konungurinn kvatt til forsætis ráðuneytisins og skipað mig dómsmála- og kirkjumálaráðherra.

Þegar jeg í ársbyrjun 1917 tók að mjer embætti það, er jeg enn hefi með höndum, var það talið fyrsta hlutverk ráðuneytisins að reyna að firra landið vandræðum af ófriðnum. Jeg lofaði því þá, fyrir ráðuneytisins hönd, að gera það, sem vjer megnuðum til þessa. Aðrir verða að dæma um, hvernig þetta hefir tekist hingað til. En vandræðin af ófriðnum eru ekki úti enn. Margir telja, að tímar þeir, er nú fara í hönd, verði að ýmsu má ske enn erfiðari en sjálfur ófriðartíminn fyrir hinar hlutlausu þjóðir. Hið nýja ráðuneyti mun af fremsta megni halda áfram að vinna að því að firra landið vandræðum af ófriðnum og afleiðingum hans.

Þá lofaði jeg því, fyrir ráðuneytisins hönd, að vinna að því af fremsta megni, að þjóðin næði fullum yfirráðum yfir öllum málum sínum. Þessu marki hefir verið náð, jeg held jeg megi segja fram yfir vonir og líkindi. En það þarf að gæta þess, er fengið er, og mun hið nýja ráðuneyti af fremsta megni ástunda það.

Hið síðasta Alþingi var alldjarftækt um framkvæmdir í ýmsum efnum til stuðnings atvinnuvegum landsins, samgöngum o. s. frv. Ráðuneytið mun fara hina sömu braut, að svo miklu leyti sem fjárhagur ríkissjóðs leyfir. En þess mun það gæta stöðugt og hafa það fyrir augum, að góður fjárhagur ríkissjóðs er skilyrði fyrir sönnu sjálfstæði ríkisins.

Jeg þarf ekki að lýsa því, sem sjálfsagt er, að ráðuneytið mun vinna að endurskoðun skattamálanna, verklegum rannsóknum og frekari undirbúningi í vatnamálunum, í því skyni og með það fyrir augum, að eitthvað verði gert. Yfir höfuð mun ráðuneytið leggja áherslu á framkvæmdir. Að öðru leyti þykir mjer ekki ástæða til að lýsa afstöðu ráðuneytisins í einstökum málum.

Vjer viljum stunda góða og vinsamlega samvinnu við sambandsþjóð vora, sem jafnan er búin til að greiða fyrir oss í hvívetna, svo og við hinar aðrar Norðurlandaþjóðir, og yfir höfuð stuðla að heiðarlegum viðskiftum út á við.