17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Halldór Steinsson:

Háttv. flm. þessarar till. (G. Sv.) hefir tekið skýrt fram, að nú verður að taka til öflugra varna gegn spönsku veikinni, sem að líkindum er á næstu grösum. Allir muna usla þann, er hún gerði í fyrra. Jeg vil ekki leggja dóm á hvort ráðstafanir þær er þá voru gerðar, voru heppilegar eða ekki. En brent barn forðast eldinn, og hinar alvarlegu afleiðingar veikinnar síðastliðið ár ættu að vera hrópandi áskorun til stjórnar þessa lands um það, að gera nú sitt ítrasta til að hefta útbreiðslu hennar.

Að því er snertir þær ráðstafanir, er stjórnin nú hefir gert gegn útbreiðslu veikinnar, með reglugerð frá 29. jan. þ. á., þá geta þær aldrei orðið annað en hálfgert kák, af þeirri einföldu ástæðu, að þær verða óframkvæmanlegar í „praxis“ hjer á landi. Reglugerðin fyrirskipar, að læknir, sem fer um borð í skip með inflúensusjúklinga innbyrðis, skuli einangra sig í 7 daga á heimili sínu eða annarsstaðar. Jeg vil taka dæmi þessu til skýringar. Skip kemur af hafi með veikan mann af inflúensu. Læknir er sóttur um borð. Hann skoðar sjúklinginn, og hvort heldur hann lætur flytja hann í land eða skipið siglir sína leið, þá hefir hann haft mök við sjúklinginn. Læknirinn verður því að fara í sóttkví í 7 daga. Þegar hann svo losnar, þá er má ske komið annað veikt skip. Nú vil jeg spyrja: Hvað á það lengi að ganga, að hjeraðið sje læknislaust? Þetta getur gengið svo vikum skiftir. Nú gerir reglugerðin ráð fyrir, að í slíkum tilfellum skuli vitja nágrannalæknis; en þeir, sem nokkuð þekkja til, hvernig læknaskipuninni er hagað hjer á landi, vita, að mjög sjaldan er hægt að byggja á hjálp nágrannalæknis, ef nokkuð liggur við. Það getur ef til vill staðið eins á fyrir honum, að hann sje í sóttkví, eða þá að hann hefir sjúklinga í sínu hjeraði, sem hann ekki kemst frá.

Á nú læknirinn, heilbrigður á heimili sínu, að horfa á hjeraðsbúa hrynja niður við hliðina á sjer, án þess að skifta sjer af því?

Ef varnirnar eiga að koma að notum, verður að haga þeim öðruvísi. Að mínu áliti ætti að banna læknunum að fara um borð. Það ætti að vera nóg, að þeir færu að skipshliðinni og fengju lýsingu á sjúkdóminum, gæfu ráðleggingar og kæmu út meðulum. Sama er að segja um það, ef vistaskortur er um borð í sýktu skipi. Þá má koma vistum um borð án þess að hafa nokkur náin mök við skipshöfnina.

Spanska veikin er ein þeirra sjúkdóma, er beita verður við einhlítum og ströngum reglum, og sje hjer um nokkra hættu að ræða, þá verður að taka öðruvísi í taumana en gert hefir verið með fyrnefndri reglugerð.