17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Magnús Pjetursson:

Jeg hefi eiginlega ekki annað að taka fram um mál þetta en hv. meðflm. minn (G. Sv.) hefir gert. Vil að eins undirstrika frekar sumt af því.

Aðaltilgangur tillögunnar er að birta stjórninni skýlausan vilja þingsins, og þó sjerstaklega sýna henni, að hún hafi frá þingsins hálfu heimild til þess að verja fje í þessu skyni. Jeg get ekki hugsað mjer, að þingið geti rætt nema fjármálahlið þessa máls, því háttv. þm. eru ekki færir um að dæma um, hverjar varnir eru bestar eða hvernig þær skuli framkvæma. Þar verður hún að nota þá sjerfræðilegu aðstoð, sem hún getur besta fengið. Jeg get því ekki sjeð, að hjer sje um annað að ræða en samþ. tillöguna, og hafa ekki miklar málalengingar um það.

Jeg skal leyfa mjer að skjóta því fram, út af orðum hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að tveir menn hefðu verið fundnir með hita í húsi einu, þar sem Vestmannaeyingar hefðu komið, að ef þá aðferð ætti að hafa, að mæla alla, sem Vestmannaeyingarnir hafa haft mök við, og nota hana sem vott um inflúensusmitun, þá mætti teygja hana ákaflega langt. Hafa t. d. allir þm. verið mældir? Þeir hafa þó allir haft meira og minna samneyti við hv. þm. Vestm. (K. E.), og auk þess var hann í leikhúsinu.

Nefndarskipun álít jeg að enga þýðingu muni hafa. Hún getur aldrei gert annað en það, að undirstrika vilja þingsins í þessu efni.