17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Guðmundur Björnson:

Jeg skal ekki vera langorður, að eins gera örlitla athugasemd út af ræðu hv. þm. Snæf. (H. St.).

Í fyrra urðu heilbrigðisstjórnir allra landa fyrir þungum átölum, og hjer á landi beindust þær aðallega að mjer, og tel jeg vel farið, að þau mál hafa ekki verið rifjuð upp hjer aftur. Ástæðan til þess, að jeg legg þó einnig orð í belg að þessu sinni, er sú, að jeg þykist mega segja, að jeg hafi einna mesta reynslu í sóttvarnarmálum hjerlendra lækna, af um 20 ára starfsemi minni og afskiftum af þeim málum. Þegar jeg var upp á mitt hið besta, lagði jeg hvað eftir annað fram alla krafta mína til að stöðva ýmsar farsóttir, og tókst það oft — en beið líka oft ósigur. Reynsla mín er því sú, að það sje oft hægt í bili að stöðva slíkar sóttir, en tæpast unt til langframa að stemma alveg stigu fyrir þeim farsóttum, sem aðrar þjóðir treystast ekki til að verjast.

Mjer finst því, eins og hv. þm. Snæf. (H. St.), að ef gera hefði átt ítrustu tilraun til varna, sjeu þær ráðstafanir, sem nú hafa verið gerðar, ekki nógu strangar. Og þetta hefi jeg sagt stjórninni. En sjálfsagt virðist þó, að stjórnin fari eftir tillögum sóttvarnarnefndar, og hún hefir talið 5–7 daga nógu langan sóttvarnartíma.

Það, sem sjerstaklega knúði mig samt til þess að taka til máls, voru ummæli hv. þm. Snæf. (H. St.) um afskifti lækna af útlendum skipum, sem koma með veika menn. Ef varnir gegn slíkum hættum ættu að vera óyggjandi, þyrfti að setja sjerstaka sóttvarnarlækna á helstu slíka staði, því það er óbærileg tilhugsun, að læknir þurfi að sóttkvía sjálfan sig í 7–10 daga eftir að hafa vitjað um slíkt skip, meðan kona liggur kann ske í barnsnauð í næsta húsi og líf hennar leikur á þræði. Þetta getur oft kostað mörg mannslíf, að þurfa þannig að teppa lækninn, og jeg sem landlæknir get ekki, fyrir læknastjettarinnar hönd, unað lengur við þetta skipulag.

En hv. þm. Snæf. (H. St.) talaði um það, að læknar gætu fengið skýrslur frá slíkum skipum og síðan sent meðal. En þessu vil jeg alvarlega mótmæla, því eins og íslenskum skipum, sem koma til annara landa og líkt stendur á fyrir, er veitt öll nauðsynleg hjálp, eins er það þjóðarskylda okkar að veita dauðsjúkum erlendum mönnum sömu hjálp, þegar þeir koma til okkar. Annað getum við ekki forsvarað gagnvart samvisku sjálfra okkar. En nú munu menn skilja, hvaða vandræði geta af því stafað, ef sjálfur læknirinn þarf að vera sóttkvíaður þegar svona stendur á. En það er augljóst, að það er ekki unt að sjá við þessu án þess að vanrækja sjálfsagða mannúðarskyldu — nema með sjerstökum sóttvarnarlækni.

En annar vandinn er sá, að við höfum þessa menn ekki til, — við höfum tæpast menn í föstu hjeraðslæknaembættin. En jeg vildi samt leyfa mjer að benda á þetta, benda á það, að sem siðuð þjóð getum við ekki neitað fársjúkum útlendingum um læknishjálp, þegar þeir hafa velkst í hafi við vondan aðbúnað langa lengi, og að við getum heldur ekki látið landa okkar vera læknislausa vegna þessa, með öðrum orðum, að sóttvarnarlæknar eru þjóðarnauðsyn.